Tuesday, April 5, 2005

Um fyrirhugaða sölu Símans


Nú á að selja Símann. Ég sé ekki hvers vegna þess ætti að þurfa. Vinstri-grænir vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um málið ... og ég tek undir það. Þjóðaratkvæðagreiðsla væri ágæt, svona til tilbreytingar. En hvers vegna ættu hinir háu herrar að efna til hennar? Hún er svo dýr. Kostar margar milljónir. Svo er hún líka ástæðulaus. "L'état, c'est moi" heyrist mér foringinn segja. Er það svo nokkuð annað en útfærsluatriði, hvaða fálmari á auðvaldinu það er sem stýrir þessu? Hvort það er sá hluti valdastéttarinnar sem situr í holdi og blóði í ráðherrastól og gerir vinum sínum gott -- eða sá hluti hennar sem situr í forstjórastól og gerir vinum sínum gott -- það breytir kannski ekki öllu. Lítill munur á kúk og skít.
Einn af þeim sem hafa tjáð sig um söluna er minn kæri Sigurður Hólm á Skoðun.is. Ég má til með að leggja út af nokkrum orðum hans sem ég er ósammála:
Yfirvöld hafa ekkert að gera með því að reka símafyrirtæki í samkeppnisrekstri.
Þessi mantra hefur verið endurtekin svo oft að fólk kinkar ósjálfrátt kolli þegar hún er höfð yfir. Hver segir að hið opinbera ætti að halda sig fjarri atvinnuvegunum? Hver segir það? Hver segir að atvinnuvegirnir séu í alvörunni betur komnir hjá kapítalistum? Að mínum dómi eiga atvinnuvegirnir að þjóna fólkinu í landinu, ekki auðmagni fámennrar elítu. Eina leiðin til að þeir þjóni almenningi í alvörunni er að almenningur eigi þá sjálfur. Og nú kemur hið áhugaverða twist: Ég held að ef atvinnuvegirnir eru í ríkisrekstri í borgaralegu, kapítalísku ríki eins og Íslandi, þá séu þeir einmitt ekki reknir í þágu almennings í raun. Atvinnuvegir í eigu einkaauðmagns eru slæmir ... en atvinnuvegir í eigu opinbers auðmagns eru slæmir líka, þótt þeir séu að sumu leyti skárri. Þeir eru undir stjórn ríkisvaldsins -- og ríkisvaldið er ekkert annað en framkvæmdanefnd auðvaldsins. Munurinn á fyrirtæki í einkaeign og fyrirtæki í ríkiseign er að það sem er í einkaeign er í eigu eins eða fárra kapítalista, meðan það sem er í ríkiseign er í eigu kapítalistastéttarinnar í heild, en ég kem að þriðja möguleikanum síðar. Pétur Blöndal (eins ósammála honum og ég er að mörgu leyti, þá kann ég að meta hreinskilni hans) hitti í mark um daginn þegar hann sagði að Landsíminn væri ekki eign þjóðarinnar heldur ríkisins. Það er hárrétt hjá honum.
Sigurður Hólm heldur áfram:
Hvað sem okkur finnst um aðferðirnar þá er einkavæðing Símans gleðiefni í sjálfu sér.
Einkavæðing Símans er skref í ranga átt, frá dreifðari eignaraðild og völdum til samþjappaðri eignaraðildar og valda. Með öðrum orðum, umsvifin í téðu fyrirtæki færast fjær fólkinu. Það er slæmt í sjálfu sér. Þar við bætast auðvitað meingölluð vinnubrögð (eins og venjulega), manna sem fara sínu fram í fullvissu þess að værukærir sauðirnir mögli ekki.
Ríkiseign slæm. Einkaeign verri. Hvað vil ég þá í staðinn? Ég hlýt að þurfa að svara því. Það er mér líka ljúft: Ég vil sjá sameignarfyrirkomulag og samvinnurekstur. Ekki à la Sovétríkin eða SÍS 1985, heldur lárétt, milliliðalaust skipulag, kerfi sem rekið er á svo lýðræðislegan hátt sem kostur er. Milliliðalausa aðkomu fólksins, án þess að ríkisvald eða auðvald setji stól fyrir dyr eða heimti afnotagjöld. Það mætti kannski kalla þetta þjóðnýtingu án ríkisvæðingar, en mig langar frekar til að kalla það lýðvæðingu.
Ef einhvern langar að stofna félag um lýðvæðingu Símans, safna a.m.k. 100.000 félögum, og kaupa svo Símann af ríkinu, þá er ég til viðtals um það.

No comments:

Post a Comment