Monday, April 11, 2005

Í sunnudagsmogganum var ágæt grein um Nepal og ástandið þar. Ég held að greinarhöfundi hafi tekist vel upp með að skrifa grein sem var í senn fróðleg og sanngjörn. Maóistar hafa nú lag sem aldrei fyrr. Það er umhugsunarefni að þeir skuli ekki láta til skarar skríða og taka þetta með einu roknaáhlaupi. Kannski að þeim finnist ekki á það hættandi að leggja allt undir ... kannski að þeim finnist það skynsamlegra að vinna fleiri smærri en öruggari sigra, vinna smám saman á. Kannski að þeir séu að sýna þolinmæði sína og yfirvegun. Kannski að þeir séu að sýna á sér veikleikamerki. Ég hef tekið þann pól í hæðina að trúa ekki orði sem Gorkhapatra-fréttastofa nepölsku krúnunnar segir. Það er nú ljóta spunameistarakvörnin. Nema hvað þeir eru engir sérstakir meistarar. Varla telst það vel spunnið, þegar leikmenn hinu megin á hnettinum sjá í gegn um það, eða hvað?
Ég efast um að nokkuð sé til í fréttum Gorkhapatra af klofningi í röðum maóista. Hins vegar er því ekki að neita að maður verður hugsi yfir því að þeir skuli ekki gefa allt í botn. Á laugardaginn fyrir viku lýstu þeir yfir 11 daga allsherjarverkfalli ... og maður hefði líklega meiri spurnir af því ef það gengi vel, ekki satt? Farsímakerfið er ennþá í lamasessi og boðleiðir tepptar ... þannig að kóordinasjón maóista er slegin út af laginu. En ég er hræddur um að málið eigi sér aðra skýringu, semsé þá, að Prachanda, Bhattarai og félagar hafi misreiknað sig í taktískum ákvörðunum. Ég hef það t.d. á tilfinningunni að meiri virðing fyrir mannréttindum hefði skilað sér margfalt í auknu fylgi. Sama má segja um alvöru lýðræði innan flokks og utan. Án þess að ég þekki til þess í smáatriðum, þá efast ég um að "lýðræðislegt miðstjórnarvald" hafi gefist mikið betur í CPN(M) en öðrum flokkum ... og ég geri ekki ráð fyrir því að þorpsbúum haldist uppi að vilja bara lifa sínu lífi í friði. Það má þræta fram og til baka um að nauðsyn brjóti lög, að hagsmunir heildarinnar gangi fyrir, að í miðri byltingu verði herinn að vera samhentur o.s.frv. og kannski er það alveg rétt. Kannski. Þegar öllu er á botninn hvolft þykir mér það samt dapurlegt, ef virðingarleysi fyrir mannréttindum verður þess valdandi að byltingin misheppnist. Ef bylting yrði farsæl þrátt fyrir einhver mannréttindabrot ... þá mætti kannski líta á það út frá hagsmunum heildarinnar. Ef byltingin yrði ekki sigursæl en byltingarmannanna yrði minnst með hlýju og aðdáun næstu áratugina, þá hefðu þeir líka unnið eins konar sigur, þótt ekki hefði hann verið á vígvellinum. En ef saman fara ónóg virðing fyrir mannréttindum og óyfirstíganlegir erfiðleikar sem keyra byltinguna út af sporinu ... þá tapa einfaldlega allir.

No comments:

Post a Comment