Thursday, April 21, 2005

Gleðilegt sumar, gott fólk.

Ég setti undirskál með vatni í út og ætla að vakna snemma og sjá hvort það kemur hem (þunnur ís) á vatnið. Ef frjósa saman sumar og vetur veit það á að gott verði undir bú í sumar. Annað er sagt, að ef "Reykjavíkurtjörn er íslaus fyrir sumarmál" - sem hún hefur verið (sumarmál eru síðustu fimm dagar fyrir sumardaginn fyrsta) - "þá er von á íkasti eftir þau" ... með öðrum orðum, þar sem Tjörnin hefur verið íslaus undanfarna viku, þá eigum við von á "íkasti". Ég hlakka til, ég kemst þá kannski að því hvað "íkast" er, einhvers konar hret. Ef "íkast" er nálægt sumarmálum er það kallað "sumarmálarumba".

"Eldiviðarþerrir fer eftir því hvernig viðrar fyrsta laugardag í sumri, en heyþerrir eftir því hvort rigning er eða þerrir fyrsta sunnudag í sumri." ... þannig að við höfum augun hjá okkur um helgina.

Heimild: Jón Árnason: Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, II. bindi, Reykjavík MCMLXVI, s. 538.

No comments:

Post a Comment