Monday, April 11, 2005

Reykbann á kaffihúsi
-- afstaða hins frjálslynda marxista


Tesa 1: Einkaeignarrétturinn er mannasetning. Hann er ekki náttúrulögmál, guð bjó hann ekki til, og hann er ekki sjálfsagður. Hann er mannasetning.

Tesa 2: Atvinnuvegi þarf að reka með þarfir fólks í fyrirrúmi, ekki ávöxtunarkröfur fjármagnseigenda. Aðeins þannig má tryggja öllum aðgang að lífsviðurværi og koma í veg fyrir bruðl.

Reglur um reykingar á kaffihúsum eru það sem ég þarf að létta á mér með. Það stendur til að banna reykingar á kaffihúsum. Ég er á móti því að ríkisvaldið banni þær algjörlega. Ég tel reykreglur á kaffihúsum ekki koma ríkisvaldinu við. Ég get samt ekki fallist á að þau mótrök hægrimanna, að kaffihúsið sé í einkaeign, séu gild mótrök. Að mínu mati ætti ákvörðunin að vera tekin af þeim sem hún kemur við, það er að segja, þeim sem ákvörðunin snertir. Það eru þá annars vegar þeir sem vinna á kaffihúsinu, hins vegar þeir sem eiga viðskipti við það. Þar við bætist sá sem á kaffihúsið, sem hlýtur að reyna að græða á báðum hinum. Þeir sem vinna á kaffihúsinu geta varla ráðið yfir því nema þeir séu jafnframt eigendur þess, þannig að ég sé ekki að einfalt sé að leysa þetta nema kaffihúsið sé samvinnurekið.

En á meðan samvinnurekin kaffihús fyrirfinnast varla ... þá fellst ég á að þeir sem vinna þar hafi, eins og annað vinnandi fólk, rétt til að sæta ekki heilsuspillandi starfsumhverfi af hálfu vinnuveitanda. Ef starfsfólkið samþykkir -- ótilneytt og af eigin hvötum -- að á kaffihúsinu séu reykingar heimilar, þá sé ég ekki að neinum sé stætt á að banna það. Það er hins vegar vafasamara, að eigandi sem vinnur ekki þar sjálfur (og einn), hafi mikinn rétt til að ákveða þetta.

Samfélagið getur sett sér reglur um hvernig hlutirnir eiga að vera. Þær reglur geta brotið í bága við einkaeignarrétt ef almannahagsmunir krefjast þess -- enda er einkaeignarrétturinn, eins og ég sagði í byrjun, ekki annað en mannasetning. Það sem meira er, þeir sem græða á að einkaeignarrétturinn sé í hávegum hafður eru einkum þeir ríkustu -- sem jafnframt hafa töglin og hagldirnar í ríkisvaldinu -- sem aftur gengur umfram annað út á að tryggja einkaeign. Tryggja mannasetningu sem gagnast fáum en skaðar marga. Tryggja forréttindi fámennrar elítu fyrir hagsmunum fjöldans.

Aftur að fyrirhuguðu reykbanni. Ríkisvaldið er ekki það sama og samfélagið, en stundum tekur ríkisvaldið vissulega að sér að gera það sem samfélagið hagnast á eða vill. Heilsusamlegt vinnuumhverfi er óneitanlega nokkuð sem má telja hagstætt ...

Kaffihús í einkaeigu eru háð sama annmarka og svo margt annað í einkaeigu: Hagsmunir stangast á. Andstæðir hagsmunir eiganda og starfsmanns kaffihúss eru, í eðli sínu, ósættanlegir. Hér er á ferðinni ekkert annað en smækkuð mynd af stéttaandstæðum þjóðfélagsins sjálfs. Stéttaandstæðurnar eru ósættanlegar -- og þess vegna þarf ríkisvaldið til að breiða yfir þær -- með ofbeldi. Það er ekkert annað en ofbeldi að neyða mann til að vinna í reyk ef hann vill það ekki sjálfur -- og það er ekkert annað en ofbeldi að banna kaffihúsaeiganda að ráða í sínum húsum. Það þarf að höggva á hnútinn með ofbeldisaðgerð: Lagasetningu. Lögin sætta ekki andstæðurnar; ef það væri hægt að sætta andstæðurnar þyrfti ekki lög. Lögin eru aðferð annars hagsmunaaðilans til að hafa sitt fram.

Andstæða hagsmuni eiganda og starfsmanns er ekki hægt að sætta. Hins vegar er hægt að leiða andstæðuna til lykta, og það er ekki einu sinni svo flókið: Allt sem þarf er að eigandi og starfsmaður sé sami aðilinn. Hann þarf þá ekki að hugsa um hagsmunina nema út frá sjálfum sér, og stéttaandstæðurnar eru úr sögunni. Það er frábært þegar litlir hnútar í samfélaginu eru leystir með stofnun samvinnurekinna fyrirtækja eða öðrum sósíalískum rekstri. Það er frábært. Það er ennþá frábærara ef hægt er að koma þeirri breytingu í kring í öllu samfélaginu: Þegar einkaeign heyrir sögunni til, og samvinnu- og sameignarrekstur er normið, þá heyrir og efnahagsleg stéttaskipting sögunni til, stéttaandstæðurnar eru leiddar til lykta með því að stéttunum er útrýmt. Það ferli er það sem vér köllum byltingu. Svo ég svari spurningunni áður en hún er borin upp: Nei, ég er ekki að tala um að skjóta alla kapítalistana í hausinn. Ég er að tala um að keppa þá út af markaðnum sem kapítalista. Afnema einkaeignina, en í stað komi sameign. (Ha, stela bara af kapítalistunum? Nei, kjáni!) Einkaeignarrétturinn, aftur á móti, er annað mál. Ef frjálslyndur sósíalismi er jafn góð hugmynd og ég held að hann sé, þá mun spurningin um einkaeignarréttinn svara sér sjálf í fyllingu tímans. Ef sameignarfyrirkomulag er betra, þá virkar það af sjálfu sér og verður normið - og þegar einkaeign sem slík er orðin að gamaldags sérviskuhætti er einkaeignarrétturinn ekki lengur svo merkilegt spursmál.

En byltingin er nú ekki byrjuð. Hvernig leysum við þessa reykingaþrætu án þess að til þurfi byltingu?

Ja, ég sting upp á þessari málamiðlun: Kaffihúsaeigendum verði heimilt að leyfa reykingar í einangruðum, vel loftræstum hluta kaffihússins, gegn því að þeir greiði fyrir það gjald (sbr. vínveitingaleyfi) og setji upp merkingu utan á kaffihúsið: Varúð, hér má reykja.

Málið leyst.

No comments:

Post a Comment