Thursday, April 28, 2005

Í Írak hefur skrípamynd af lýðræðislegu þingi samþykkt ríkisstjórn Ibrahims al-Jaafari. Þetta PR-stönt þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að láta okkur Vesturlandabúa halda að þarna sé að komast á lýðræði. Það er einfaldlega ekki svo. Fyrir kosningarnar töluðu menn um að ef súnnítar sniðgengju þær, þá væri það alvarlegur áltitshnekkir fyrir trúverðugleika kosninganna ... súnnítar sniðgengu þær, en svo láta menn eins og allt hafi verið með felldu. Sjálfar ksoningarnar voru haldnar undir vökulum byssuhlaupum bandaríska hernámsliðsins, listar með nöfnum frambjóðenda voru ekki gerðir opinberir fyrr en á kjördag, og sama má segja um kjörstaði. Að lokum er þetta svokallaða "lýðræði" í Írak háð í skjóli hernáms. Alvöru lýðræði verður ekki þröngvað upp á fólk. Alvöru lýðræði kemur neðan frá og fæðist heima fyrir. Þversögnin við "hernámslýðræði" Íraks er að yfirgnæfandi meirihluti Íraka vill að hernámsliðið hypji sig heim til sín og það án tafar. Ef hernámsliðið færi, þá yrði fljótt bundinn endir á lífdaga þessarar sýndar-lýðræðisstjórnar, sem á allt sitt undir hernáminu!
Íraka vantar þjóðfrelsi, en það öðlast þeir ekki nema þeir geti rekið Bandaríkjaher úr landi af eigin rammleik. Það tekst þeim aftur ekki nema þeir standi sameinaðir í stað þess að leyfa fylkingu þjóðfrelsissinna að klofna. Standa sameinaðir, sameinaðir eftir línum stétta, ekki þjóðernis eða trúar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Tilvitnun dagsins í Rauða kverið:
Það fellur í vorn hlut að skipuleggja fólkið. Það er verkefni vort að gersigra afturhaldsmennina í Kína. Það gildir hið sama um allt afturhald. Ef þú greiðir því ekki högg, þá fellur það ekki. Þetta er líka eins og sópa gólf. Rykið hverfur ekki af sjálfu sér, þar sem sópurinn nær ekki til, ef að vanda lætur.
Rauða kverið, s. 11-12

Það þarf að taka til hendinni, vinna rösklega gegn afturhaldsöflum í þjóðfélaginu, öðruvísi hverfa þau ekki og halda áfram afturhaldi sínu. Þetta gerir enginn annar en fólkið sjálft, skipulagt af brautryðjendum eða framvörðum.
Hvernig er best að greiða afturhaldinu högg? Ég held að best sé að svelta það: Láta það einangrast þjóðfélagslega og efnahagslega. Með öðrum orðum, koma afturhaldinu í þá aumu stöðu, þar sem andstæðingar þess eru í dag...
Það sem ég hef mesta trú á er þetta: Stofnuð sé hreyfing sem grefur markvisst undan afturhaldinu, meðal annars með því að koma á laggirnar sósíalískum atvinnurekstri (samvinna eða sameign) og "keppa þá út af markaðnum" með því að bjóða launafólki upp á betri störf og neytendum upp á góða samvisku í kaupbæti. Koma þannig upp sósíalískum efnahagsumsvifum og um leið grafa undan efnahagsumsvifum afturhaldsins, þangað til það er orðið að jaðarafli í þjóðfélaginu.

No comments:

Post a Comment