Wednesday, April 27, 2005

Í gær byrjaði ég á nýjum "dagskrárlið" á Töflunni á Dordingli, sem er dagleg tilvitnun í Rauða kverið eftir Maó formann, í von um að áhugaverðar umræður skapist, sem vonandi mætti læra eitthvað af.
Þegar þetta er skrifað hafa umræðurnar ekki orðið mjög langar ennþá, en eins og hans var von og vísa kom Siggi pönk með sjónarhorn anarkistans með tilvitnun í Gustav Landauer: „Ríkið er ekki fyrirbæri sem hægt er að eyðileggja með byltingu heldur er það ástand, ákveðin tengsl milli manna, ákveðið hegðunarmynstur. Við eyðileggjum það með því að byggja upp önnur tengsl, með því að hegða okkur öðruvísi.“
Er ekki hægt að eyðileggja ríkið með „byltingu“?
Tja, það fer kannski eftir því hvaða merkingu maður leggur í þetta orð, „bylting“, býst ég við.
Þannig að ég svaraði, og læt því fleygt hér líka:
Það er ... algengur misskilningur að orðið „bylting“ þýði svipað og „valdarán“ ... svo er ekki. Byltingin fer meðal annars fram á vígstöðvum stjórnmálanna, en ekki síður - kannski aðallega - í efnahagskerfinu, í daglegu atferli, í neyslu, í því hvernig við vinnum fyrir okkur, hugsum um okkur sjálf og aðra, hvernig við tökum þátt í samfélaginu. Með öðrum orðum, það sem ég á við þegar ég segi „bylting“ er ekki valdataka stjórnmálaflokks, heldur að þeir sem í dag eru vitlausu megin við valdboðið, öðlist pólitíska meðvitund, fari að hugsa og geri eitthvað í sínum málum, bæði sem einstaklingar og sem heild. Aðeins þannig gæti byltingin orðið gæfuleg. Sjálft ríkisvaldið er svo vissulega ein hliðin á málinu. Það yrði ekki „yfirtekið“ fyrr en slíkt væri tímabært, eða, réttara sagt: Þegar samfélagið hefði burði til að losa sig undan ríkisvaldinu og skipuleggja sig sjálft, þá mundi það bara gerast. Hvernig sem sjálf útfærslan yrði.

Þannig að ... hvað með þessi ummæli Maós gamla? Ég er sammála þeim, en samt aðalleg í yfirfærðri merkingu: Í staðinn fyrir stjórnmálaflokk sem rænir völdum, þá þarf einhverja til að brjóta ísinn, einhverja til að sá fræjunum. Það má kalla þá frumkvöðla, framverði, rugludalla, hugmyndafræðinga, pönkara sem dreifa bæklingum á tónleikum eða hvað sem þið viljið. Þessi hreyfing þarf ekkert að vera með skipulagsskrá eða spjaldskrá ... hluti af henni gæti verið það, en fyrst og fremst byggist hún á því hvað fólk er reiðubúið að taka þátt í henni: Taka ábyrgð, taka afstöðu, taka þátt, taka líf sitt úr höndum þeirra sem fara illa með það.

Hvað með hugmyndafræðina? Verður að vera hugmyndafræði? Ég, fyrir mitt leyti, held að hún sé einn af þáttunum sem ráða úrslitum ... en góð hugmyndafræði þarfnast ekki miðstýrðrar maskínu til að afla fylgismanna. Hún er sett fram ... vegna þess að hún er góð tekur fólk mark á henni.

No comments:

Post a Comment