Sunday, April 3, 2005

Fyrir svona einu og hálfu ári síðan, eða rétt rúmlega það, þá hætti ég að éta svín og kjúklinga. Þessi dýr eru ræktuð við ómannúðleg skilyrði, skilyrði sem ég gæti ekki hugsað mér sjálfur að búa lifandi dýri. Ef ég get ekki hugsað mér að veita dýri einhverja meðferð en borga í staðinn einhverjum öðrum fyrir að gera það, hvað er ég þá annað en hræsnari? Í viðleitni minni til að vera aðeins minni hræsnari, aðeins meðvitaðri og aðeins ábyrgari neytandi, að ógleymdri aðeins betri samvisku, þá ákvað ég því að hætta að éta svínakjöt eða kjúkling, nema mér þyki sýnt fram á að viðkomandi dýr hafi ekki liðið ástæðulausar kvalir af mannavöldum. Ég geri að vísu þá undantekningu, að ég ét stundum egg. Sumum finnst þetta fáránlegt. Hvað með það hvernig einhverjum heimskum dýrum líður? spyrja sumir. Við höfum alltaf étið dýr, hvers vegna ættum við að hætta því núna? spyrja aðrir. Málið snýst ekki um að ég éti ekki dýr per se. Það er ómannúðleg meðferð á dýrum sem ég vil ekki taka þátt í af samviskuástæðum. Stundum kemur þetta mér í asnalega klípu. Mér er kannski boðið í mat og það er kjúklingaréttur á boðstólum. Hvað á ég að gera, sía kjúklingabitana úr? Það er oftast vandræðaleg sitúasjón sem þá kemur upp.

No comments:

Post a Comment