Wednesday, June 15, 2005

Um skyrslettur, mótmæli og fleira


Skyrsletturnar á álráðstefnunni eru umhugsunarefni. Skipuleggjendurnir gátu sagt sér það sjálfir að það yrðu mótmæli, og það var örugglega ástæðan fyrir því að þessi ráðstefna var ekki gerð kunn almenningi. Það mátti vita fyrir að það yrðu mótmæli, og allir vita að almennileg, friðsöm mótmæli er ekki hægt að draga saman á nokkrum klukkutímum. Einhverjar Gandhi-aðferðir komu því ekki til greina þarna, þökk sé skipuleggjendunum sjálfum. Í staðinn gripu nokkrir einstaklingar til örþrifaráða, hvað sem fólki annars finnst um þau. Þar sem skrúfað var fyrir hefðbundna farvegi fyrir mótmælin, þá fundu þau sér óhefðbundinn farveg í staðinn.

Mig hálfgrunar satt að segja að svona aðgerð veki ekki jafn almenna andúð og margir virðast halda. Mig grunar að margir hugsi innra með sér að þetta hafi nú verið vel af sér vikið, þótt þeir létu ekki hafa það eftir sér. Fólkið sem talar digurbarkalega á kaffistofunni og í heita pottinum, getur það fordæmt fólkið sem framkvæmir það sem hin hugsuðu? Okkur hefur verið kennt að svona geri maður ekki og við hikum við að brjóta gegn því eða lýsa okkur á móti því sem við teljum vera meginstrauminn. En mig grunar að leyndur stuðningur við þessa aðgerð sé umtalsverður. Það var ekki verið að meiða neinn. Það er ekki öllum sárt um það þótt milljónamæringur þurfi að senda Armani-jakkafötin sín í hreinsun.

Það er auðvitað ekki þar með sagt að þetta hafi veið góð hugmynd og það mun koma í ljós hver eftirmálin verða af þessu. Þetta ber óneitanlega þann árangur að ráðstefnugestirnir urðu skelkaðir og eru þá ekki eins öruggir með sig við að rústa landinu okkar og seilast til valda í efnahagskerfinu okkar. Það er óneitanlega gott ef þessir þrjótar átta sig á að þeir eru ekki velkomnir hérna. Ég veit hins vegar ekki hvað skal segja um fórnarkostnaðinn. Þótt skyrslettur séu tiltölulega meinlausar, eru þær samt býsna aggressíf aðgerð, hljóta iðulega að vekja neikvæða athygli og eru því vægast sagt vandmeðfarin aðferð! Alla vega komst enginn málstaður til skila í fréttatímanum. En það var kannski ekki ætlunin.

Ef mótmæli eiga að vera í anda Gandhis, þá verða skipuleggjendur að láta vita með nægum fyrirvara að eitthvað standi til. Þegar þeir vita að fólk vill mótmæla, þá verða þeir að gefa því tíma til að skipuleggja friðsamleg mótmæli ef mótmælin á annað borð eiga að vera friðsamleg. Skyrslettur eru samt aðferð sem er í besta lagi tvíbent. Trúverðugleikinn hlýtur að bíða hnekki. Stimplar ungæðisháttarins og óstýrilætisins eru skammt undan. Jákvæðari nálgun á málin er víst vænlegri til árangurs - en til að mótmæli geti farið friðsamlega fram verður svona viðburður að vera auglýstur í tæka tíð. Það var þessi ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er grein eftir mig á Vantrú í dag, miðvikudag. Eins og illa gerður hlutur heitir sú og er um aðkomu Þjóðkirkjunnar að stjórnarskrárráðstefnunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Dick Cheney átti tilvitnun dagsins í fréttatímanum: Ég held að Guantanamo-fangelsið hafi ekki gert orðstír Bandaríkjanna verri. Flestir sem eru að mótmæla meðferð fanga þar voru á móti stefnu Bandaríkjanna fyrir. [leturbreyting VV] ... já, ég er ekki frá því að þarna hafi auðvald og ofbeldisfullt ríkisvald talað upp úr svefni. Hvers vegna ættu stjórnmálamenn að hlusta á þá sem gagnrýna þá? Hvers vegna ætti Halldór Ásgrímsson að gefa því gaum sem ég hef að segja, til dæmis? Það er ekki eins og ég eigi eftir að kjósa hann fyrir því.

No comments:

Post a Comment