Friday, June 24, 2005

Kárahnjúkabúðir og fjölmiðlar


Uppsetning tjaldbúða við Kárahnjúka er hafin. Fréttir herma að sjö manns séu þar núna, en búast við má töluverðri fjölgun á næstu dögum. Athyglisvert er að bera saman fréttir mismunandi fjölmiðla af búðunum. RÚV segir: „Fyrstu tjöldin í fyrirhuguðum tjaldbúðum mótmælenda við Kárahnjúkavirkjun voru reist í dag. Tjaldbúar segja að búðirnar verði líflegar og skemmtilegar og vel sé hægt að mótmæla án þess að sýna ofbeldi. Lögreglan hefur vaktað svæðið við Kárahnjúka í dag.“ Þetta sé ég ekki betur en að sé sanngjörn frétt. Mogginn hefur verið undarlega þögull um þetta mál. Um Vísi undanfarna daga er hins vegar annað að segja. Þar segir meðal annars (allar leturbreytingar eru mínar):
Engin tjöld enn á Kárahnjúkum
Enn virðast engin tjöld mótmælenda farin að rísa á Kárahnjúkasvæðinu. ... Hitinn er í kringum fimm stig svo það er vonandi að mótmælendurnir séu vel búnir fyrir útileguna.
Sjá fleiri en ég hótfyndnina skína út á milli glottandi tanna fréttamannsins? Ég giska á (veit ekki fyrir víst, en giska á) að blessað fólkið hafi nú hlustað á veðurfréttirnar áður en það lagði af stað. Eða, segir það sig ekki sjálft? Eða segir það sig kannski ekki sjálft, að það sé vel búið ef það ætlar að dvelja þarna vikum saman? Höldum áfram:
Ekkert sést til mótmælenda
Ekkert hefur sést til mótmælenda á Kárahnjúkum en þeir hugðust setja upp tjaldbúðir þar í gær á lengsta degi ársins. Lögregla hefur verið á svæðinu í dag en þar hefur verið kalt og var hiti aðeins tvær gráður í morgun. Frá skipuleggjendum tjaldbúðanna bárust þær fregnir í dag að tafir hefðu orðið en stefnt væri að því að koma á svæðið í kvöld.
Þetta gat verið verra, en ég þykist enn sjá í gegn um fyrirsögnina að mótmælendurnir séu lúserar og að þetta sjó ósvinna hjá þeim (og eigi örugglega eftir að misheppnast). Höldum enn áfram:
Eitt tjald risið við Kárahnjúka
Aðeins eitt tjald virðist risið við Kárahnjúka þar sem mótælendur sögðust ætla að reisa tjaldbúðir.
...
Kalt hefur verið á Kárahnjúkum undanfarna daga og hitinn þar var aðeins um tvær gráður í nótt og því hefur væntanlega verið kalt í tjaldinu sem búið er að reisa.
Á heimasíðunni Saving Iceland er hins vegar öllu meira gert úr aðgerðunum hingað til.
Heimasíðan Saving Iceland er gerð ótrúverðug með því að gefa í skyn - eða segja beint - að þar sé farið með staðlausa stafi og meira digurbarkatal en tilefni sé til. Eins og hver, sem skoðar síðuna, getur gengið úr skugga um, eru þetta ómakleg ummæli. Þar stendur skrifað, dagsett 23. júní:
„Fyrstu tjöldin hafa risið á bökkum Jöklu strax til vinstri þegar komið er yfir brúnna. Tólf manns eru komnir á staðinn. Veður er hlýtt og bjart.
Fyrstu 2-4 dagarnir fara í að koma búðunum upp og þeir sem vilja aðstoða við það eru ómetanlegur liðsauki, öllum sem vilja taka þátt er velkomið að koma.“
22. júní eru sjö komnir fyrir kvöldið og daginn eftir er fjöldinn kominn í tólf. Ég leyfi mér að efast um að veðrið sé mjög hlýtt, en það getur samt vel verið, sbr. Veðurstofu Íslands. En höldum áfram:
Eitt tjald við Kárahnjúka
Tveir einstaklingar í einu tjaldi mynda nú mótmælendabúðirnar sem andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar eru að koma þar upp. Fimm til viðbótar bætast við fyrir nóttina.
Skipuleggjendur hugðust koma upp búðunum fyrir sumarsólstöður í fyrradag en í dag var þar aðeins eitt lítið tjald, við Sauðá, um þrjá kílómetra frá Kárahnjúkastíflu. Ekkert sást til mannaferða við tjaldið en fréttaritari Stöðvar 2 fékk þær upplýsingar að þar inni væru tveir einstaklingar sofandi, karl og kona, enda hefðu þau komið á svæðið seint um nótt og tjaldað í morgun.
Næst er því lýst hvað fólkinu á Kárahnjúkum sé annt um öryggi mótmælendanna, og m.a. vitnað í Yrsu Sigurðardóttur. Hún er sjálfsagt góð manneskja og ekki efast ég um að henni sjálfri sé umhugað um öryggi þeirra. En yfirmenn hennar? Það er nú það. Þeir virðast ekki (eða a.m.k. ekki ennþá) hafa áhyggjur af því að þessi mótmæli verði árangursrík. Kannski kenna þeir bara í brjósti um ungt fólk með hugsjónaeldinn logandi. Kannski að þeir komi meira að segja með smákökur og sitthvort mjólkurglasið handa meinleysingjunum tveim? Hver veit.
Svo lengi sem þessi mótmæli eru meinlaus býst ég við að þau fái að vera í friði. Á meðan má líka búast við að góðlátleg hótfyndni fréttamanna beinist að þeim öðru hvoru. Um leið og þau fara að hafa tilætluð áhrif má hins vegar búast við öðru hljóði í strokkinn. Þá má sjá fyrir sér að lögregla verði kölluð til og að athyglin beinist að því sem er „sensational“ við mótmælin - ef einhver streitist á móti eða eitthvað þvíumlíkt. Ég skal hins vegar éta hattinn minn ef eftirfarandi (feitletruð) fullyrðing reynist röng: Í sumar munu fjölmiðlar ekki veita stóru fréttinni mikla athygli, sem er að gerast á Kárahnjúkum, en það eru stærstu umhverfisspjöll Íslandssögunnar, og sá boðskapur -- sú frétt sem mótmælendurnir vilja vitaskuld að athyglin beinist að -- verður hornreka við hlið æsifrétta af óstýrilátum ungmennum og stjórnleysingjum. PR-áróður Landsvirkjunar verður áfram áberandi í fréttum en hlið umhverfisverndarsinna verður að miklu leyti þögguð niður í fréttum hér eftir sem hingað til. Því verður haldið stíft að Íslendingum, að Kárahnjúkavirkjun sé æðisleg og mótmælendurnir örsmár hópur sérviturs, eða öfgafulls, en meinlauss og svolítið hlægilegs hugsjónafólks sem sé á mótþróaskeiði eins og stórir unglingar.
Sannið þið bara til.

No comments:

Post a Comment