Tuesday, June 28, 2005

Bókin sem Siggi pönk var að gefa út, Um anarkisma, virðist þegar vera farin að hafa áhrif.
Svo ég segi minn túskilding á anarkisma, frjálslyndum sósíalisma og hinni langvarandi rökræðu um ríki/ekki ríki, þá veit ég um ýmsa sem kalla sig ýmist anarkista eða frjálslynda sósíalista og gera annað hvort ekki greinarmun á, eða álíta þetta tvennt skarast í stóru sniðmengi. Ég álít sjálfur að þetta skarist. Frjálslyndur sósíalismi er í mínum huga frjálslyndur á sama hátt og anarkismi er það, semsagt afgerandi frjálslyndur.
Markmið anarkista er hið sama og markmið (annarra) kommúnista, sem er að koma á samfélagi sem er laust við stéttaskiptingu og ríkisvald. Það hefur lengi verið djúpstæður ágreiningur um það, hvernig þeirri breytingu verði komið í kring og hafa anarkistar löngum viljað afnema ríkisvaldið, en kommúnistar að öreigastéttin yfirtæki það og mótaði í sinni mynd.
Ég, fyrir mitt leyti, sé nákvæmlega enga haldbæra ástæðu fyrir því að þetta tvennt þurfi að stangast hvort á við annað. Frá því þverhausarnir Marx og Bakúnín gátu ekki komið sér saman í 1. alþjóðasambandinu á 19. öld hefur sárlega skort samræðu milli anarkista og (annarra) kommúnista, einkum marxista. Hvorir tveggja hafa tapað á því að hafa ekki gagn og aðhald hverjir af öðrum. Marxistum hefur hætt til of mikils stjórnlyndis og ofskipulags, en anarkistum til of lítils skipulags og stefnu og lausrar í reipunum, og svo hefur báðum hætt til sundurlyndis og slíks, bæði innbyrðis og út á við. Ég, fyrir mitt leyti, sé það sem stóran og mikilvægan áfanga í hinni miklu baráttu, eða byltingu, ef þú vilt kalla það það, að anarkistar, sósíalistar, kommúnistar, marxistar, eða hvað sem menn kalla sig, geti stillt saman strengi sína og komið sér saman um (a) markmið og (b) leiðir. Það vildi ég sjá, takk fyrir. Og þú átt að vera með í að lyfta þessu grettistaki, takk fyrir.

No comments:

Post a Comment