Thursday, June 16, 2005

Katastrófa: Játa mig sigraðan


Fyrir allmörgum árum sá ég í kennslubók í skólanum að maður nokkur hefði sagst hafa „fyrirmæli frá æsinum Óðni“ - og ég rak upp stór augu: Æsinum? Þetta samrýmdist sko ekki minni málfarskennd, og gerði ég athugasemd. Kennarinn sagði að „æsi“ væri rétt þágufall af „ás“ og það sögðu sumir af bekkjarfélögum mínum. Ég var aldeilis ekki sammála því: „ási“ væri það og engar refjar. Þegar tímanum lauk sat ég fastur við minn keip með kökk í hálsinum.
En nú tók ég mig til - bara í gærkvöldi - og skrifaði Íslenskri málstöð fyrirspurn um þetta. Ætlaði að fá úr þessu skorið í eitt skipti fyrir öll.
Svarið barst um hæl:
Sæll Vésteinn.
Rétt beyging er ás, ás, æsi, áss; æsir, æsi, ásum, ása.
Það leynir sér ekki. Ég þræti ekki við Íslenska málstöð. Niðurstaðan er semsagt sú að ég hafði á röngu að standa og hafði haft á röngu að standa í öll þessi ár. Ég held að þessi þræta hafi verið þegar ég var í 10. bekk - þ.e.a.s. fyrir áratug síðan.
Ég hef haft rangt fyrir mér um þetta í áratug! Að eitthvað sé „frá æsinum Óðni“ finnst mér ennþá hljóma illa - en sem ég segi, maður þrætir ekki við Íslenska málstöð.
Í tilefni af þessu hef ég bætt verðskulduðum hlekk á Íslenska málstöð á linkalistann hér til hægri.

No comments:

Post a Comment