Sunday, June 19, 2005

19. júní: Fagnaðardagur fyrir lýðræðissinna


Í dag eru 90 ár frá því kosningaréttur varð almennur á Íslandi, 90 ár frá degi einhverra stórstígustu breytinga í lýðræðisátt í sögu Íslands. Það er tómt mál að tala um borgaralegt lýðræði þar sem konur sitja ekki við sama borð og aðrir, en reyndar fengu fleiri en konur kosningarétt fyrir 90 árum. Með gildistöku sömu laga var veittir kosningaréttur snauðum körlum - vinnumönnum, tómthúsmönnum og öðrum - að vísu með því skilyrði að þeir hefðu ekki þegið af sveit, auk þess sem kosningaaldur þeirra, eins og kvennanna, var í fyrstu töluvert hærri en karla sem borguðu visst útsvar. En stökkið var stórt, og ég vil óska löndum mínum til hamingju með það. Tilefni dagsins er tilefni til almenns fagnaðar, ekki bara fagnaðar kvenna, því hver nýtur lýðræðis ef sumir njóta þess ekki? Hver er frjáls ef sumir eru ófrjálsir?

Það er ástæða til að minnast unninna sigra og fagna orðnum framförum, en varast skyldi fólk, að telja sig vera komið í höfn eða láta hér við sitja. Margt er eftir óunnið, mörgum steini óvelt, áður en þetta samfélag okkar má heita fullfrjálst, stjórnfrjálst, réttlátt, fullvalda eða í höfn komið. Í mínum huga eru dagar á borð við þennan umfram annað hvatning fortíðarinnar til nútímafólks, að láta ekki deigan síga heldur halda áfram baráttunni, vinna nýja sigra og þoka samfélaginu áfram til meiri framfara, meira lýðræðis og meira réttlætis.

Verði svo.

No comments:

Post a Comment