Monday, June 20, 2005

Ég sé mig knúinn til að draga aðeins í land varðandi "katastrófuna" um daginn, viðvíkjandi erindi mínu til Íslenskrar málstöðvar. Svo er, að þótt ég geti nú fallist á að "æsi" sé rétt þágufallsmynd eintölu af "ás" í merkingunni "goð", þá get ég með engu móti fallist á að það sé eina rétta myndin. Frá "ási" og frá "ás" finnst mér hvort tveggja hljóma fullkomlega eðlilega, og ég sé ekki að ég, sem altalandi Íslendingur, sé um þau efni ómerkilegra kennivald en annað kennivald. Semsagt: Ég mun halda áfram að viðurkenna "ás" og "ási" sem rétt þágufall af "ás" í merkingunni "goð". Það er ekkert óeðlilegt við að fleiri aukafallsmyndir en ein séu réttar af sama orðinu, eða fleiri myndir en ein almennt. Ég tek sem dæmi orðið sem í upphafi beygðist "mær - mey - mey - mær" og bætti svo við sig myndinni "mey - mey - mey - meyjar" - og svo enn "meyja - meyju - meyju - meyju". Það er tilhneiging til að sterk beyging víki fyrir veikri, og í krafti þess mun ég halda áfram að segja "frá ás" eða "frá ási", þótt ég fallist á að hitt sé rétt líka.

No comments:

Post a Comment