Saturday, June 18, 2005

Enn af mótmæla-, virkjana- og álversmálum


Úr fréttum RÚV:
Glæpa og afbrotaumhverfi á Íslandi er að breytast, segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Hann segir það alvarlegt að fólk geti ekki komið saman á lýðræðislega samkomur án þess að eiga það á hættu að vera truflað eins og gerðist á ráðstefnu um áliðnað á Hótel Nordica í...
Á lýðræðislegar samkomur? Hvað er lýðræðislegt við að ráðamenn stórfyrirtækja plotti í reykfylltum bakherbergjum? Hvað er lýðræðislegt við að reyna að halda ráðstefnunni leyndri af ótta við fólk sem er ósammála? Hvað er lýðræðislegt við að leyniráðstefna kapítalistabrodda ákveði hlutskipti fólks sem er ekki einu sinni látið vita af ráðstefnunni? Svar: Það er ekkert lýðræðislegt við það. Ég efast um að Björn Bjarnason mundi þekkja alvöru lýðræði þótt það kæmi og ruglaði fínu hárgreiðslunni hans.
...og meira af sama meiði:
Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, vísar á bug gagnrýni mótmælenda álráðstefnunnar sem fram fór á Hótel Nordica í gær og þvertekur fyrir að þar hafi Ísland verið markaðsett sem ódýrt málmbræðsluland.
Hann segir það bæði órökrétt og rangt af umhverfisverndarsinnum að gagnrýna nýtingu hreinnar orku vilji þeir raunverulega draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og bæta lífsskilyrði í þriðja heiminum.
Er fólk hissa á að Jóhannes vísi á bug gagnrýni á hans eigið fyrirtæki? Ef það er bara rætt við hann, þá þarf hann ekki einu sinni að rökstyðja mál sitt. „[M]arkaðssett sem ódýrt málmbræðsluland“ er einmitt það sem Ísland er. Ódýrt rafmagn og ódýrar umhverfiskröfur. Á meðan Ísland er auglýst sem hreint ferðamannaland og borgararnir hvattir til að sturta ekki úr öskubökkunum á götuna („hreint land, fagurt land“) sjá gróðapungarnir bara tækifæri í óspjallaðri náttúrunni. Er það „hrein“ orka, að hlaða upp einhverjum rúmkílómetrum af jökulleir? Er það „hrein“ málmbræðsla, að reisa risaálver á Íslandi til að bæta fyrir lokun álvers í Bandaríkjunum, sem er lokað vegna kostnaðar við mengunarvarnir þar? Hvað er til betra til að laða að sálarlaus stórfyrirtæki, heldur en að gefa afslátt af umhverfisvernd, kjaramálum, lýðræði og öðrum mannréttindum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil í leiðinni vísa í meiriháttar góða grein Sverris Jakobssonar á Múrnum, sem innblásin er af þessum mótmælum og hinum móðursýkislegu viðbrögðum við þeim.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gærmorgun gerði ég mér ferð í kirkjugarðinn þegar forseti borgarastjórnar lagði blómsveig á Jón Sigurðsson. Það eru örugglega 15 ár síðan ég gerði það síðast. Það fór vel fram, en athöfnin var heldur fámennari en ég bjóst við. Fylgdi svo skrúðgöngu niður á Austurvöll. Á Austurvelli var ýmislegt sem lét mér líða eins og barninu í "Nýju fötunum keisarans". Skruðningar í hátalarakerfinu, marserandi smástelpnadeild og fret í mótorhjólum löggunnar, geistlegir kennimenn í hálfgerðum trúða-skrúða og svo framvegis. Ég gat, satt að segja, ekki annað en hlegið að þessum skrípalátum.

No comments:

Post a Comment