Sunday, June 12, 2005

Ég fór á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar í gær. Var skráður sem óháður (eða, réttara sagt, sagnfræðinemi). Dagskrá ráðstefnunnar má lesa hér. Ráðstefnan stóð frá morgni og fram undir kvöld. Ekki er hægt að segja að mikill hiti hafi verið í mönnum, og saknaði ég tveggja erinda úr umræðunni, sem hvorugt barst nefndinni nógu snemma til að komast á dagskrá ráðstefnunnar, en það voru erindi Lýðræðishópsins og erindi Vantrúar (sjá Vantrú á morgun, mánudag). Margir málaflokkar voru ræddir og var umræðum skipt upp í þrjár málstofur, svo sem sést í dagskránni. Um flest það sem rætt var hef ég ekki annað að segja en að margt áhugavert og fróðlegt kom fram, en ráðstefnan var sem slík frekar lognmolluleg og hefði mátt hugsa sér fjörugri umræður. Ég held ég geti tekið undir erindi a.m.k. ÖBÍ, Félags heyrnarlausra, Þjóðarhreyfingarinnar, Siðmenntar, SARK, Landverndar, SHA og sumra annarra að einhverju leyti ... en eitt sló mig.
Bæði félögin SARK og Siðmennt lögðu fram tillögur um að trúfrelsi yrði betur tryggt og ríki og kirkja aðskilin, og viti menn: Þjóðkirkjan sendi fulltrúa á staðinn. Hún hafði (og hefur) ekki sent nefndinni erindi, og svo skömmu sem 36 tímum áður en ráðstefnan hófst vissi enginn af þátttöku hennar - en þarna dúkkaði Sigurjón Árni Eyjólfsson upp fyrir Þjóðkirkjunnar hönd og virtist eiga að vera einhvers konar mótvægi við SARK, Siðmennt og fleiri sem mæltu með aðskilnaði. (Þess má geta að þótt Samtök herstöðvaandstæðinga ættu fulltrúa, þá voru Samtök um vestræna samvinnu víðs fjarri, svona til samanburðar!)
Sigurjón flutti erindi sem nefndist „Kirkja og samfélag“ og var því dreift til ráðstefnugesta eins og öðrum erindum. Eftir stutta leit á Google varð ég þess vísari að þetta erindi hefur áður birst, þá undir nafninu „Trú og afhelgun“, á Guðfræðivefnum! Þar getur hver sem er séð erindið, og ég þarf því ekki að segja þeim sem þetta lesa að það var bæði óviðeigandi, innihaldsrýrt, fullt af tuggum, klisjum og rökleysum og, í stuttu máli sagt, óskiljanlegt hvað það var að gera þarna. En endilega, látið mig ekki segja ykkur að það hafi verið þannig: Lesið það sjálf.
Það er kominn tími til að forréttindastöðu og silkihanskameðferð þessarar forneskjustofnunar linni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í dag eru 92 ár liðin frá einu glæsilegasta tiltæki Íslendinga í borgaralegri óhlýðni, fánatökunni. Það er því viðeigandi í dag að hugsa til borgaralegrar óhlýðni og hvaða erindi hún á í dag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Bólivíu hefur forsetinn Mesa sagt af sér og nýr forseti er tekinn við. Umsátri mótmælenda um höfuðborgina La Paz er lokið og nú er að sjá hvort stjórnarbæturnar verða gerðar, sem hefur verið lofað.

No comments:

Post a Comment