Friday, June 24, 2005

Í dag tók ég í notkun nýtt bindi af vasabókinni minni. Ég sé fram á að þurfa að horfa á ~50 kvikmyndir og kaupa ~ 50 bækur áður en ég tek næstu í notkun, það er orðið svo tímafrekt að færa á milli bóka listann yfir bækur sem mig vantar og myndir sem ég þarf að sjá. Ég hef ekki hugmynd um númer hvað nýjasta bókin er, en grunar að númerið sé einhvers staðar milli 30 og 40. Það er óþolandi að vera með skert minni og áráttu fyrir því að vilja muna hugrenningar sínar, hvort tveggja í senn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Áðan hitti ég nokkra félaga mína og við litum inn á Ölstofu Kormáks og Skjaldar og við duttum sko aldeilis í lukkupottinn: Ókeypis bjór og skot! Ég drakk tvo bjóra af tegund sem ég man ekki hvað heitir og bragðaðist frekar illa. Þá drakk ég eitt skot af annað hvort "Ópal" eða "Tópas" -- alla vega bragðaðist það alveg eins og rauður ópal -- og er sannkallaður viðbjóður. Ópal á maður að sjúga, ekki staupa. Og hann á að vera blár, ekki rauður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Vegna þess að Arngrímur kaupir ekki alveg brandarann í þarsíðasta bloggi, þá er best að ég láti fylgja nokkra í viðbót, í svipuðum dúr, til skýringar. Þessa birtingu tileinka ég Arngrími:

Það var maður sem dó og fór til himna og þar sem hann stóð við Gullna hliðið þá .. bíðið við, æ, gleymið þessu, hann lá bara ofan í jörðinni og rotnaði.

Hvítur maður á Cadillac ók framhjá svertingja sem leiddi hjólið sitt meðfram þjóðveginum. Hann stoppaði til að bjóða svertingjanum far. Hann sagði: „Hjólið þitt kemst því miður ekki í skottið, en ef þú vilt getum við bundið það aftan í bílinn og ég get þannig dregið þig. Ef ég fer of hratt, þá æpirðu bara.“
Svertinginn svaraði: „Nei takk, það hljómar of hættulegt fyrir minn smekk,“ og hélt áfram að leiða hjólið sitt meðfram þjóðveginum.

Önd kom vaggandi inn í Bónus og spurði afgreiðslumann: „Eigið þið varasalva?“ Afgreiðslumaðurinn var innflytjandi, talaði ekki íslensku og skildi öndina því ekki. Hins vegar áttaði hann sig vel á því hvað það var óeðlilegt að öndin kynni að tala, hélt að guð væri að refsa sér, og brast í grát. Öndin gekk undrandi út, spyrjandi sjálfa sig hvað hún hefði ætlað að gera við varasalvar hvort sem er, vegna þess að endur eru ekki með neinar varir.

Hafnfirðingur kom til læknis til að fara í ófrjósemisaðgerð. Hann var klæddur í svört jakkaföt. Læknirinn spurði hvers vegna hann væri klæddur í svört jakkaföt, og Hafnfirðingurinn svaraði: „Ég var að koma úr jarðarför.“

Ég er vel upp alinn ungur maður, stunda ekki ritstuld, og tek því fram að þessa brandara, og fleiri í svipuðum dúr, fann ég hér (en þýðingin og staðfæringin er mín).

No comments:

Post a Comment