Tuesday, June 21, 2005

Nepölsku sjöflokkarnir taka yfirlýsingu Prachanda af varkárni og segjast bíða eftir að maóistar breyti í samræmi við hana. Tanka Dhakal, ráðherra samskiptamála og talsmaður ríkisstjórnar konungsins, sagði: "Við höfum heyrt af tilraunum sem flokkarnir hafa gert til að mynda bandalag viðhóp sem hefur verið lýstur hryðhuverkahópur. Bandalag milli hans og flokkanna yrði óheppilegt." Það er skiljanlegt að konungsmanninum finnist það óheppilegt, ef maóistar og þingræðisflokkar taka höndum saman. Það sem er samt óheppilegast er að Gyanendra kóngur skuli fara með völd sín eins og hann gerir, en bæði royalistar og maóistar sæta þungum ásökunum um mannréttindabrot. Mögulegt bandalag milli flokkanna gæti (ef til vill) verið slæm hugmynd frá sjónarhóli byltingarinnar, en sagt er að það hafi orðið rússnesku byltingunni þungur baggi, þegar bolsévíkar gerðu bandalag við ýmsa aðra misjafnlega afturhaldssama flokka.

Það, sem gæti orðið samvinna milli þingræðisflokkanna og maóista, hófst með því að kóngurinn boðaði til sveitarstjórnarkosninga sem þingræðisflokkarnir sögðust mundu sniðganga. Þeirri sniðgönguyfirlýsingu tók Prachanda formaður fagnandi með yfirlýsingu daginn eftir. Búist er við að bilið milli maóista og hinna flokkanna fari mjókkandi á næstunni. Prachanda sagði að þeir flokkar yrðu boðnir velkomnir í bandalag, sem tækju afstöðu gegn kerfinu (kerfi lénsveldis og kapítalisma) og gegn krúnunni, m.ö.o. sem gerðust byltingarsinnaðir. Nú er haft við orð að maóistarnir séu fúsir að semja um að konungur sitji áfram, ef hann verði táknrænn, og að konunglegi herinn verði ekki leystur upp heldur, heldur aðeins færður undir lýðræðislega stjórn. Það gæti orðið pólitískt erfitt fyrir sjöflokkana að tengjast maóistum, þar sem þeir síðarnefndu hafa myrt fjölda starfsmanna og aktívisita þeirra fyrrnefndu undanfarin ár.

Það er líka sagt að þetta gæti verið divide et impera af hálfu maóistanna. Þeir neituðu að eiga samningaviðræður við Deuba meðan hann var forsætisráðherra vegna þess að hann hafi ekki umboð til að koma til móts við kröfur þeirra. Frekar hafa þeir sagst vilja tala við konunginn sjálfan. Nú mætti halda að þeir væru að etja hinum flokkunum gegn kóngi - veikja andstæðinga sína með því að láta þá takast hvora á við aðra.

Um þessar mundir held ég að fari heldur rénandi það dauðafæri sem maóistar höfðu til að ganga milli bols og höfuðs á konungdæminu eftir valdarán konungsins 1. febrúar. Maóistarnir reyndust ófærir um að nýta sér það þá vegna síns eigin innbyrðis klofnings, milli formannsins Prachanda og næstráðandans Bhattarai. Bhattarai mun hafa krafist sterkara lýðræðis innanflokks og sakaði Prachanda um einræðistilburði. Prachanda sakaði þá Bhattarai um klofningshneigð, að örva klíkumyndun í flokknum og að vera agent fyrir indverska heimsvaldasinna, m.a. eftir að Bhattarai fór til Nýju-Delhi og hitti þar formann Kommúnistaflokks Indlands (marxista). Bhattarai brást við með því að segja að Prachanda væri agent konungshallarinnar. Prachanda hefur yfirhöndina, alla vega sem stendur, og ég er hræddur um að ásakanir Bhattarai um einræðistilburði séu ekki úr lausu lofti gripnar.

(Heimildir: *, *, *, *, *)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Talandi um suður-asíska maóistaskæruliða, þá hafa maóísku naxalbari-skæruliðarnir sett fylkisyfirvöldum í Andra Pradesh úrslitakosti. (*)

No comments:

Post a Comment