Thursday, November 4, 2004

Vantar okkur fleiri fanatíkera?



Núna er hægt að horfa á Ómega í Íran. Kerfið þeirra er komið á einhvern ísraelskan gerfihnött og spannar allt frá Grænlandi til Kína. Núna geta sakleysingjar sirka 70 landa látið heilaþvo sig með lýðskrumi og smita sig með andlegri kerfisvillu.

Ef sósíalistar hefðu til að bera helminginn af framtaksseminni sem Ómegamenn hafa, þá væri öðruvísi um að litast í heiminum, held ég. Mín ágiskun er að þriðjungur heimsins væri undir sósíalískri stjórn, þriðjungur væri enn undir stjórn heimsvaldasinna, en í þriðjungi heimsins væri byltingin það vel á veg komin að hún ætti alls kostar við ríkisvaldið. Mín ágiskun. Á hverju byggi ég hana? Engu sérstöku. Hún er út í bláinn.



Allavega, það mega trúarnöttarar eiga, að þá skortir ekki eldmóðinn. Það er stundum eins og vinstri róttæklinga vanti eldmóðinn. Eða bara að þeir séu ekki nógu margir. Það er kannski hinn almenni borgari sem vantar eldmóðinn? Eða eru róttæklingarnir kannski bara ekki nógu margir? Hvernig ætli standi á því?



Ég átti einu sinni framhaldsrökræður við Votta Éhóva úti í Ungverjalandi, eins og lesendur mína til lengri tíma kann að ráma í. Fyrst þegar þær bönkuðu upp á áttum við langar (heillangar) rökræður um allan fjandann. Ég hafði þá legið í Rauða kverinu eftir Maó formann og var með á takteinum ótal dæmi um díalektíska efnishyggju, sem þær féllust á – en samþykktu svo ekki þegar í ljós kom að niðurstaðan var að guð væri óþarfur!



Næst þegar þær komu -- nokkrum dögum seinna -- voru þær með Varðturninn handa mér. Á íslensku. Ég varð dolfallinn. Hvernig í andskotanum gátu þær verið komnar með íslenska Varðturninn strax?? (Ég hafði að vísu lesið þetta tiltekna tölublað áður en ég var ekkert að svekkja þær með því...) Allavega rann upp fyrir mér ljós þarna. Þótt maður sé ósammála trúarnötturum um flest, þá má samt læra af þeim. Sama má segja um aðra sem eru ósammála manni, það má læra af þeim. Vottar Éhóva, til dæmis, eru ótrúlega vel skipulagðir og geta hrist fram úr erminni Varðturninn á íslensku á nó tæm. Það, í sjálfu sér, er til fyrirmyndar. Til eftirbreytni.



Þá vík ég aftur að upphaflega umræðuefninu. Hvernig stendur á því að öfgatrúaðir rugludallar geti komið sínum boðskap til milljóna í gegn um gerfihnött og fjármagnað ófögnuðarerindi sitt með gjafafé misvesælla sauða, meðan heimsvaldasinnuð ríkisstjórn Íslands ólmast eins og naut í flagi en íslenskur almenningur situr lúpulegur hjá og borar í nefið? Hvar er eldmóðurinn? Þurfum við fleiri fanatíkera í okkar hóp, svo við verðum eins og trúarnöttararnir? Getur verið að það sé málið?







Ég hef ekki svarið við því á takteinum. Ég vona að meiri fanatík sé ekki það sem þarf. Ég er samt hræddur um að það sem í rauninni þarf sé ekkert skárra. Það er nefnilega örvæntingin. Íslendingar eru feitir og værukærir. Latir og sjálfsánægðir. Friðþægður verkalýðsaðall, upp til hópa. Innlendu valdastéttinni hefur undanfarna áratugi gengið bærilega vel að láta undirstéttirnar halda sér saman með því að eiga nægar dúsur í handraðanum til að stinga upp í hana. Það var hiti í mönnum, eins og sagt er, þegar skórinn kreppti. Í kreppunni eða eftir stríð eða í verkföllum 6. áratugarins, svo dæmi séu tekin. Þá var ekki nóg til af dúsum, fólk var svangt og það var flogist á. Götubardagar í Reykjavík. Hvað er langt síðan slíkt henti síðast? Tilhugsunin er næstum því hlægileg í dag. Eða fjarlæg. Kannski viljum við að hún sé fjarlæg.



Vinstrisinnaðasti flokkur Íslands höfðar kannski hvað mest til menntamanna í þéttbýli, frekar en til verkalýðsins. Skömm frá því að segja, en ég býst við að maður verði nú samt að segja það. Hvers vegna er hann ekki verkalýðsflokkur? Það er allt í lagi að kalla flokkinn sinn feminískan umhverfisverndarflokk, en þótt þau mál fengju meira brautargengi væri björninn samt langt frá því að vera unninn. Borgaralegir vinstriflokkar eru ógjarnan áfram um að vinna björninn -- það er að segja, afnema auðvaldið.



Ansi er ég hræddur um að viðleitni til að afnema kapítalisma, og eitthvað þannig, hér á Íslandi, eigi eftir að stoða lítið meðan valdhafar hafa enn tök á að fróa skilningarvitum fólks og láta það halda að allt sé í stakasta lagi. Það er það ekki, en meðan fólk lætur ljúga því að sér að það sé það, er þá ekki allt í stakasta lagi fyrir valdhafa?



Nú gæti tundrið verið að styttast, í að næsta alvarlega kreppa skelli á. Þess eru reyndar strax farin að sjá merki. Þegar olíuverð fer stórhækkandi á næstu árum (jafnvel næstu mánuðum eða misserum ... hækkunin hingað til er réttsvo toppurinn á ísjakanum), þá harðnar á dalnum. Þá fer að ískra alvarlega í hjólum atvinnulífsins og hvort tveggja hrynur í senn, laun og framboð á lífsnauðsynjum (það verður minna til af vörum, þær verða dýrari og við með minna fé milli handanna). Þetta eru alvarleg tíðindi (tíðindi?) og óljúf á að heyra. Það verður erfitt að lifa -- og afætur illa séðar.



En þá verður jörðin frjó fyrir byltingu.



Hvernig hún verður háð veit ég ekki. Hitt veit ég, að til þess að hún gangi að óskum verður að vera til hreyfing sem getur axlað forystuhlutverk í henni. Hreyfing sem getur tekið af skarið þegar þess þarf, metið aðstæður, leitt fjöldann.



Nú um þessar mundir er enginn fjöldi til að leiða. Boðorð dagsins hlýtur því að vera að undirbúa þann dag og hafa hreyfinguna tilbúna þegar hennar verður þörf. Hvernig tilbúna? Þannig tilbúna, að hún eigi sér stjórnkerfi og boðleiðir, málgögn, bækistöðvar, mannafla. Sé þekkt í samfélaginu og vitað fyrir hvað hún stendur. Sé rekin á þann hátt sem við viljum að samfélagið verði rekið í framtíðinni = lýðræðislega. Sé vel búin fólki með góða þekkingu á vandamálum og lausnum.



Bylting gerir sig ekki sjálf. Innri aðstæður og ytri aðstæður þurfa að vera passlegar svo hún verði. Hún verður heldur ekki farsæl af sjálfsdáðum, öðru nær. Það er enginn hörgull á auðvaldssinnum, gagnbyltingarmönnum eða mannkynslausnurum sem vilja glaðir taka forystuna. Þess vegna verður vinnandi fólk að eiga sér sinn eigin, sjálfstæða, óháða málsvara. Það getur ekki verið upp á önnur pólítískt öfl komin. Framfarir verða ekki með afturhaldsöfl við stjórnvölinn.



Verkefni dagsins er að leggja undirstöður að hreyfingu sem getur axlað ábyrgð þegar þess þarf. Við vitum ekki hvenær það verður nákvæmlega, en sennilega er þess ekki langt að bíða. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Undirbúningsvinna þarf að hefjast tafarlaust.



Áhugasamir mega hafa samband: vangaveltur@yahoo.com



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Í dag hefði Jóhannes úr Kötlum orðið 105 ára. Hann var gott skáld.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Hér getur að líta bréf sem mér var sent. Margir munu hafa séð þetta bréf, en ég læt það fljóta með. Sniðgöngum olíufélögin eins og við getum, þau eiga það skilið, bannsett.



BARA BENSÍN!



Olíufélögin stálu af okkur peningum í mörg ár. Það liggur skýrt fyrir í niðurstöðum Samkeppnisstofnunar.



Þeir viðurkenna það - en segja að málið sé fyrnt. Þeir vilja ekki borga sektir eða skaðabætur- vegna þess að það er svo langt síðan þeir stálu frá okkur!



Við getum svarað fyrir okkur. Það þýðir ekkert að hafa bensínlausan dag. Það er bara rugl því þá verslum við bara meira á morgun. Við refsum þeim með buddunni og kaupum BARA BENSÍN!



Alveg þangað til þeir hætta að röfla og borga sínar sektir og skammast sín - þá kaupum við BARA BENSÍN!



Ekki sígarettur, ekki pylsur, ekki hreinsiefni, leikföng, nammi, mat, hanska, grill né neitt annað, Við kaupum allt slíkt annars staðar.



Hjá olíufélögunum kaupum við BARA BENSÍN! EKKERT ANNAÐ! Þeir finna fyrir því.



Dreifðu þessu á þína vini - og stattu við það að kaupa BARA BENSÍN!



Næst þegar þú freistast til þess að kaupa eitthvað annað á bensínstöð en BARA BENSÍN þá sannar þú orð markaðsstjóra OLÍS sem sagði í samráðinu "Fólk er fífl".



Vilt þú láta hafa þig af fífli? Ef ekki þá kaupir þú BARA BENSÍN!



Almenningur



Félögin sem um ræðir eru: Skeljungur, OLÍS og ESSO

No comments:

Post a Comment