Saturday, November 6, 2004

Arafat og eftirleikurinn í Palestínu



Arafat virðist loks vera að lúta í lægra haldi.



Hvað gerist þegar þessi svipmikli leiðtogi hverfur á braut eftir margra áratuga forystu? Arafat er og hefur verið andlit Palestínumanna útávið. Hann hefur verið óskoraður leiðtogi meðal þeirra; sannkallað mikilmenni. Útsjónasamur, klókur en auðvitað umdeildur eins og títt er um sterka leiðtoga. Eins og svo margir sterkir leiðtogar hefur Arafat í mörg ár haft alla þræði í hendi sér. Mikilvægi hans fór því ekki milli mála. En tókst honum að gera sjálfan sig ómissandi? Það kemur í ljós núna.



Það er ekki hlaupið að því að fylla í skarðið fyrir skildi þegar maður eins og Arafat fellur frá. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Margir um hituna en fáir sem hafa til að bera vinsældir eða leiðtogahæfileika sem duga. Marwan Barghouti væri líklega sá sem Palestínumönnum væri auðveldast að sameinast um -- en hann situr í dýflissu í Ísrael, vegna meintrar aðildar að vopnaðri andspyrnu gegn ólögmætu hernáminu. Píslarvottur, með öðrum orðum. Hvort hann er sekur veit ég ekki; það er nefnilega nóg að vera pólítískur leiðtogi hjá hersetinni þjóð til að baka sér óvinsældir hernámsliðsins. Það eru pólítískir leiðtogar sem standa í fylkingarbrjósti og leiða fjöldann í þjóðfrelsisbaráttu. Annar er sá sem kæmi til greina sem arftaki, en það er Mustafa Barghouti (já, sama eftirnafn), læknir, sem hefur komið hingað til Íslands og talað á fundum hjá Félaginu Íslandi-Palestínu. Hann hefur getið sér gott orð fyrir djarfmannlega framkomu og fórnfúst hjálparstarf þegar mikið hefur legið við.



En hvað ef valdaskiptin fara ekki friðsamlega fram?



Það er, því miður, vel mögulegt. Fullyrt er að Fatah, flokkur Arafats, sé sterkasti flokkur Palestínumanna og ætti í fullu tré við næststerkasta flokkinn, Hamas, ef til þess kæmi. Til þess hefur ekki komið hingað til vegna þess að allir vita hvað það þýðir: Innbyrðis erjur og bræðravíg eru til þess eins fallin að kljúfa samstöðu Palestínumanna, sem síst má við því, og skara þannig eld að köku zíonista. Slíkt uppgjör yrði í senn of sársaukafullt og of dýru verði keypt til að nokkur vilji leggja út í það. Auk þess er það mál manna að á Gazaströnd séu Hamasmenn með meira fylgi en Fatah -- það gæti þá þýtt ennþá frekari klofning.



Hvernig verður tekið á málum? Verður Hamassamtökunum boðin aðild að Palestínsku heimastjórninni? Þau hafa hingað til ekki átt aðild að henni, en hljóta að eiga tilkall til aðildar sökum vægis síns í palestínskum stjórnmálum. Mundu Ísraelar samþykkja slíkt? Miðað við syndaregistur Hamassamtakanna (eða, réttara sagt, hins vopnaða arms þeirra, al-Qassam herdeildanna), má telja það ólíklegt.



Mun þetta -- þrýstingur frá Hamas úr annarri áttinni en frá Ísraelum úr hinni -- sprengja Palestínsku heimastjórnina? Hver veit, það gætu orðið málalyktirnar.



Kannski að fráfall Arafats verði uppbrotið í þjóðfrelsisbaráttunni, sem margir hafa beðið eftir? Kannski að það verði katalýsatorinn sem knýr Palestínumenn til að hugsa sína þjóðfrelsisbaráttu alveg frá grunni?



Gleymum svo ekki hinum leikmönnunum. Hvað gera Ísraelar og stuðningsmenn þeirra? Hvað gerir Sharon? Hvað sem hann kann að segja, þá mega menn aldrei gleyma því að það eina sem verulegu máli skiptir er hvað hann gerir. Hvernig mun hann nýta sér ástandið? Verða kröfugöngur eða uppþot ekki barin niður með ægilegu valdi? Drekkt í blóði, jafnvel? Mun hann ekki gera allt sem hann getur til að stía Palestínumönnum sundur? Og hvað með heitustu stuðningsmenn hans á Íslandi, kristna bókstafstrúarzíonista? Munu þeir fagna dauða forsetans eða munu þeir biðja fyrir honum?



Ég get víst setið hér uppi á Íslandi og velt vöngum yfir þessu. Úrslitin hljóta samt að ráðast í borgum og flóttamannabúðum Palestínu. Og í hallarsölum í Washington og Vestur-Jerúsalem.

1 comment:

  1. Viltu selja nýru þína? eða Ert þú að leita að tækifæri til að selja nýru fyrir peninga vegna fjárhagsbrests og þú veist ekki hvað þú átt að gera, hafðu þá samband við okkur í dag og við munum bjóða þér góða upphæð fyrir nýru þína. Ég heiti (læknir Elvis Whyte) er með fræðingafræðingur á sjúkrahúsinu okkar og ég sérhæfði mig í nýrnastarfsemi og við glímum líka við að kaupa og ígræðslu nýrna með framfærslu samsvarandi gjafa. Hafðu samband við tölvupóst: doctorelviswhyte@gmail.com eða whatsapp okkur +2347083629144 fyrir frekari upplýsingar

    ReplyDelete