Wednesday, November 17, 2004

MÍR, Fallujah, kennarar



Sýningin í gær í MÍR-salnum heppnaðist alveg ljómandi vel. Eins og vant er dregur maður lærdóm af henni. Starf er gagnlegt, starfsins vegna. Lærdómur og reynsla nýtast manni vel þótt síðar sé.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Það virðist sem eitthvað standi til. Það er eins og æ fleira fólki sé að ofbjóða. Það er eins og fréttirnar af óhemjulegum glæpum heimsvaldasinna í Fallujah séu að ganga fram af fólki. Þráinn Bertelsson skrifaði síðan greinarstúfinn „Ég ákæri“ á baksíðu Fréttablaðs um daginn. Það er eins og fleiri séu að verða varir við óhugnaðinn sem viðgengst í okkar nafni. Á okkar ábyrgð.



Hver er annars okkar ábyrgð? Við berum ábyrgð á ríkisstjórn Íslands. Hvort sem okkur líkar betur eða verr. Seta hennar á valdastóli er undir okkur komin og meðan hún situr erum við ábyrg fyrir henni. Okkar ábyrgð er að gera það sem við getum til að blóðbaðinu í Fallujah linni. Hvað getum við gert? Það nærtækasta er að fá ríkisstjórnina ofan af stuðningi sínum við blóðbaðið. Við getum m.ö.o. hætt að styðja það. Það væri góð byrjun. Skref 2 væri þá að reyna að fá ríkisstjórnina til að fordæma blóðbaðið og skora á Bandaríkjamenn að draga her sinn út úr Fallujah hið snarasta -- og reyndar út úr Íraq, ef út í það er farið.

Er óraunhæft að tala um svona? Mun ríkisstjórnin hlusta? Munu værukærir Íslendingar einu sinni nenna að standa upp af rassgatinu til að bjarga mannslífum? Ég veit það ekki, en ég vona það. Í öllu falli ber okkur skylda til að láta á það reyna. Ef þetta virkar ekki er næsta skref nefnilega erfiðara.

Ef sýnt er að allur þorri Íslendinga sé alfarið á móti stuðningi Íslands við Íraqsstríðið, en ríkisstjórnin vill ekkert með þá andúð gera, þá hefur hún fyrirgert rétti sínum til að sitja á friðarstóli. Í lýðræði er ríkisstjórn þjónn fólksins og ef þjónninn þjónar húsbóndanum ekki, þá er hann rekinn. Það á alveg eins við um ríkisstjórnina og aðra þjóna. Halldór Ásgrímsson er þjónn. Hann á að vera auðmjúkur við yfirboðara sína, íslensku þjóðina.

Annars rekum við hann.

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Ég, Vésteinn Valgarðsson, íslenskur og reykvískur borgari, lýsi hér með yfir vilja mínum til að borga hærra útsvar eða skatta.

Ég tel að eina leiðin til að leysa deilu kennara og sveitarfélaga sé að sveitarfélögin komi til móts við réttmætar kröfur kennara og greiði þeim hærri laun, sem þeir eiga fyllilega skilið.

Ég geri mér grein fyrir kostnaðinum sem af því hlýst og lýsi mig því samþykkan því að skattar séu hækkaðir sem því nemur. Ég lýsi stuðningi við baráttu kennara, um leið og ég harma það óyndisúrræði sem þeir hafa verið hraktir til að grípa til, sem er það langa og stranga verkfall sem hefur verið undanfarið. Um leið lýsi ég andúð minni á lögum ríkisstjórnarinnar um verkfallið og stuðningi við þá kennara sem grípa til skæruverkfalla eða annarra óformlegra leiða til að leggja niður vinnu.



Vésteinn Valgarðsson

No comments:

Post a Comment