Sunday, November 28, 2004

Fólkið, Íraqsstríðið, aðgerðir, fleira



Ég er alveg bit yfir stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar við stríðið í Íraq. Svo er um fleiri. Nú er svo komið að við getum ekki setið lengur með hendur í skauti; við getum ekki látið bjóða okkur að þessi hryllingur haldi áfram í okkar nafni. Það er á okkar ábyrgð að segja „hingað og ekki lengra!“ -- og vei okkur ef við gerum það ekki.

Hvaða rétt höfum við Vesturlandabúar til friðar ef við neitum öðrum um hann? En til frelsis? En öryggis? En lífs? Ef við, með breytni okkar, setjum reglurnar, höfum við þá rétt til að kvarta þegar herskáir andspyrnumenn fara bara eftir þeim? Ef við setjum boðorð dagsins og boðorðið er ofbeldi, við hverju getum við þá búist? Mér er spurn.

Fólkið hefur fengið nóg. Það ehfur verið settur saman samskiptagrundvöllur, tengslanet, fyrir fólk sem er búið að fá nóg og vill gera eitthvað í málunum. Þetta net gengur svona fyrir sig: Farið á www.folkid.net og sjáið hvað þessi hópur á sameiginlegt. Ef þið eruð meira og minna samþykk því getið þið skráð ykkur á póstlista þar sem málin eru rædd. Þegar einhver vill grípa til aðgerða segir hann/hún frá því á póstlistanum og þeir sem sjá það þar senda SMS til félaga sinna sem þeir hafa rætt við áður og þannig fer orðsendingin eins og eldur um sinu. Þeir sem vilja boða skyndiaðgerðir geta þannig gert það. Þeir sem vilja taka þátt í þeim geta það einnig. Þarna er semsagt kominn vettvangur, fyrir þá sem hafa fengið nóg, til að samræma og manna aðgerðir. Hér með hvet ég áhugasama til að taka þátt. Þetta er rétt að byrja og enginn hefur misst af neinu.



Einn þeirra sem hefur skrifað nokkuð um þetta er Birgir Baldursson. Annar er Björn Darri. Bróðir minn líka. Og nú ég. Af gefnu tilefni vil ég taka fram að þennan hóp mynda ekki tómir atvinnumótmælendur eða erkikommar og þetta eru ekki samtök eða félag. Við ætlum að gera allt sem við getum til að stöðva þátttöku Íslands í stríðsrekstri. Já, það eru fleiri mál sem bíða úrlausnar og nei, við ætlum ekki að missa sjónar á þeim. En þetta er málið sem brennur á okkur núna. Það er verið að fjöldamyrða saklaust fólk í okkar nafni, brytja það niður og misþyrma því. Ég sé ekki að önnur mál geti verið mikilvægari. Ég hef áhuga á bæði friði, frelsi, öryggi og lífi. Ég vil ekki að fólk sé svipt því. Ef ég vil geta notið sæmilegra lífskjara og öryggis, er það þá ekki skylda mín að stuðla að því að annað fólk geti það líka?



Ef við andmælum ekki árásum í Íraq, eða Afghanistan, eða Júgóslavíu, eða Palestínu, hver mun þá andmæla þegar röðin kemur að okkur?

~*~*~*~*~*~*~*~*~*~



Meðal annars:

Í tilefni af útgáfu geisladisksins Frjálsrar Palestínu eru tónleikar á miðvikudagskvöld á Gauki á Stöng. Sjá allt um þá hér.



Hjálmar segir það koma til greina að Ísland verði tekið af lista hinna herskáu. Vonandi satt. Þetta er ekki nóg til þess að ég sé ánægður með hann samt, ef einhverjum skyldi detta það í hug.

No comments:

Post a Comment