Friday, November 26, 2004

Frjálslyndur marxismi



Það er kominn tími til að ég geri grein fyrir útlínum þeirrar stefnu, sem ég aðhyllist í pólítík. Þegar ég hef verið spurður hvar ég standi á hinu pólítíska landakorti, hef ég hingað til sagst vera frjálslyndur marxisti, yfirleitt án þess að útlista nánar hvað felst í orðunum. Það ætla ég að leitast við að gera núna.



Ég er marxisti



Ég tel að fræðin sem Karl Marx lagði grunninn að, og fleiri hafa síðar bætt og aukið við, séu í senn grundvöllur, vinnubrögð og sýn sem gagnast í meginatriðum betur en önnur við að skýra samfélagið og hafa áhrif á það. Söguleg og díalektísk efnishyggja og stéttabaráttan eru hornsteinar í söguskýringunni, og gagnast um leið til að sjá fyrir, í grófum dráttum, hvað mun gerast í framtíðinni. Greining Marx á kapítalismanum er sú besta sem ég þekki og stendur óhrakin eftir meira en aldarlangar árásir. Tímans tönn hefur ekki unnið á greiningunni sjálfri, þótt vitanlega þurfi að staðfæra hana eins og hvern 120 ára texta sem notaður er til að skýra nútímann!



Ég er frjálslyndur



Lýðræði er bæði nauðsynlegt og það eru réttindi okkar að búa við það. Um þessar mundir búum við ekki nema við málamyndalýðræði. Borgaralegt fulltrúalýðræði er ekki nema málamyndalýðræði. Án þess að ég ætli mér að útlista alla galla þess í svo stuttu máli, þá þarfnast stjórnarfar okkar og þjóðskipulag mikilla breytinga í átt til lýðræðis og meira frelsis. Á ég þá bæði við frelsi einstaklinga og frelsi samfélags.

Það þarf að minnka umsvif ríkisvalds og auðvalds. Þau umsvif þurfa að færast í hendur fólksins sjálfs, milliliðalaust, hvernig svo sem það er útfært.

Hvað frjálslyndi varðar mætti kannski nefna anarkisma í þessu samhengi. Ég er ekki anarkisti, en það er ýmislegt sem anarkistar hafa fram að færa sem vert er að athuga, svosem andúð á yfirvaldi eða kennivaldi; sterk frelsisást og hugmyndir um ábyrgð okkar á sjálfum okkur og umhverfinu.



Byltingin



Bylting er það ferli að breyta frá einu þjóðskipulagi til annars. Þar sem ég tel núverandi þjóðskipulag meingallað, ósanngjarnt, ómannúðlegt og ólýðræðislegt, þá gengst ég fúslega við því að vera kallaður byltingarsinni. Þrátt fyrir galla núverandi þjóðskipulags tel ég að það bjóði upp á möguleika til friðsamlegra valdaskipta eða valdaafsals, og því sé ég ekki ástæðu til annars en að breytingin færi þannig fram: Friðsamlega og lýðræðislega. Gandhi var líka byltingarmaður.

Þegar skipt er um þjóðskipulag þarf, eðli málsins samkvæmt, að vanda mjög til verks. Bæði þarf sjálf breytingin að taka mið af aðstæðum, og hið nýja þjóðskipulag að vera sýnu betra og þróaðra en það gamla. Ég sé fyrir mér að til verði róttækt og framsækið stjórnmálaafl, sem beiti sér fyrir afnámi hinna gömlu valdatækja og efnahagskerfis, en búi þess í stað í haginn fyrir þjóðskipulag sem einkennist af frelsi án lausungar og reglu án kúgunar. Slíkt stjórnmálaafl þarf sjálft að vera til fyrirmyndar ef það á að vera trúverðugt. Það þarf að vera lýðræðislegt, heilsteypt, sjálfu sér samkvæmt ... og auðvitað þarf það að hafa á réttu að standa! Flokkagi, flokkslína, kennivald, persónudýrkun, „óskeikulleiki“ eða baktjaldamakk eru því nokkuð sem þyrfti að forðast.

Stjórnmálaaflið, sem ætlar sér að koma í kring friðsamlegri og lýðræðislegri þjóðbyltingu, þarf að eiga stuðning þeirra sem málið varðar: Þjóðarinnar, fólksins. Því skiptir öllu að hreyfingin sé heiðarleg og trúverðug, en um leið harðskeytt, beinskeytt og skefjalaus í málflutningi sínum. Stjórnmálahreyfing sem slík kemur litlu til leiðar. Hún er aðeins farvegur fyrir hið sanna afl breytinganna, en það er fjöldafylgið. Fjöldafylgi meðal vinnandi fólks er m.ö.o. það afl sem eitt gæti gert friðsamlega og lýðræðislega þjóðbyltingu.



Nokkrar spurningar og svör



Er ég kommúnisti?



Tja, ég býst við að það megi kalla mig það. Allavega tek ég því ekki illa. Nú hefur þetta orð fleiri en eina merkingu. Ég boða ekki þúsundáraríki með flokkseinræði, verksmiðjur með 300 metra háa skorsteina og eilífa sólarupprás og ég lít ekki til Búlgaríu 1970 sem draumalandsins. Það má kannski segja að ég geti kallast kommúnisti í hinni víðari merkingu orðsins, þeirri merkingu sem innifelur bæði marxista, anarkista og ýmsa smærri hópa. Kommúnismi sem þjóðskipulag einkennist af því, að þar er engin stéttaskipting og aðstaða manna er jöfn. Lýðræði, lýðfrelsi og framleiðsla sem miðar að því að fullnægja þörfum almennings en ekki græðgi fjármagnseigenda. Kommúnismi sem stjórnmálastefna er sú stefna sem miðar í þessa átt.



Tilbið ég Stalín? Hvað finnst mér um [nafn á frægum marxista]?



Ég tilbið engan en djöfulgeri reyndar heldur engan. Alvöru djöflar og dýrlingar eru ekki til nema í ævintýrum og ég trúi ekki á einræðisherra. Þegar metnir eru fræðimenn, þjóðarleiðtogar, stjórnmálamenn eða aðrir þarf að líta yfirvegað á málin. Það sem menn kunna að hafa lagt gott til málanna má ekki týnast í moldviðri áróðurs, samhengisleysis, ranghugmynda, rökvillna eða fordóma. Það gerir engum gagn. Tilbið ég þá Stalín eða tilbið ég hann ekki? Ég tilbið hann ekki. Hvað sem gjörðum hans leið, þá liggur samt ýmislegt eftir hann sem ástæðulaust er að henda beint á haugana þótt hann sé höfundurinn.



Voru Marx eða Lenín óskeikulir?



Nei. Enginn maður er óskeikull. Marx setti fram fræðikenningu sem er ákaflega merkileg og gagnleg. Það gerir hann vitanlega ekki óskeikulan og eins og gildir um aðrar fræðikenningar er sjálfsagt og nauðsynlegt að gagnrýna og vinsa úr það sem er rangt. Lenín lagði mikið til málanna um sömu fræðikenningu, bætti hana og jók við hana. Það verður ekki af honum tekið, hvað sem mönnum kann að finnast um rússnesku byltinguna eða einstaka þætti hennar. Lenín var ekki óskeikull heldur.



Hvað finnst mér um þjóðnýtingu?



Út af fyrir sig held ég að hún sé góð og blessuð í ýmsum tilfellum. Eins og um byltinguna, þá sé ég fyrir mér að þjóðnýtingu sé best að framkvæma lýðræðislega og friðsamlega. Ég held að það sé ekki bara hægt, heldur sé það langbesta leiðin og kannski sú eina sem væri vænlegt að framkvæma. Sé ég fyrir mér þjóðnýtingu sem væri bara ríkisvæðing í dulargerfi? Nei, ég vísa til þess sem ég sagði fyrr í þessum texta: „Það þarf að minnka umsvif ríkisvalds og auðvalds. Þau umsvif þurfa að færast í hendur fólksins sjálfs, milliliðalaust, hvernig svo sem það er útfært.“



Ímynda ég mér virkilega að það sé hægt að þröngva fullkomnu kerfi upp á ófullkomið fólk?



Fólk er ekki fullkomið en það tekur sönsum. Ég játa að ég veit ekki hvað „fullkomið kerfi“ er í mannlegu samfélagi. Hitt veit ég, að núverandi kerfi er meingallað og suma af stærstu göllunum þarf að lagfæra. Efstur á þeim lista er kapítalisminn. Stundum er sagt að mikilvægara sé að þekkja það sem er rangt en það sem er rétt.

Gallar við samfélagið gera erfiðara að lifa í því og hafa slæm áhrif á fólk. Mörgum virðist fólk vera alvarlega gallað sjálft, en ég held að það sé bölsýni. Ég held að fólk sé vanmetið. Ef fólk væri jafn gallað og heimskt og margir fullyrða, þá væri samfélagið mun verr statt en það er. Ég held að það sé engin ástæða til annars en bjartsýni.

Þannig að, í stuttu máli, þá ímynda ég mér ekki að fullkomnu kerfi verði þröngvað upp á ófullkomið fólk. Hins vegar held ég að róttækum endurbótum á meingölluðu kerfinu verði tekið fagnandi af flestum, þegar gott plan hefur verið sett fram, og að þegar nokkrir alvarlegir annmarkar á kerfinu hafa verið lagfærðir, þá verði frekar hlúð að hinu „góða“ í manninum, til almennra hagsbóta fyrir samfélag og einstaklinga.



Ég vil að fólki sé búinn góður jarðvegur til að það geti blómstrað óáreitt.







*****

No comments:

Post a Comment