Monday, November 1, 2004

Átthagar mínir og ég



Ég er hæstánægður með þær breytingar sem hafa orðið undanfarið á ásýnd hverfisins míns, sem eru mörk miðbæjar og vesturbæjar Reykjavíkur. Lesendum mínum til ánægju ætla ég að telja nokkrar upp:

1. Stórfelldar endurbætur á Suðurgötu milli Túngötu og Hringbrautar. Gangstéttin hefur verið breikkuð til muna og hraðahindranir settar upp -- meira að segja þannig úr garði gerðar að þær þjóna einnig sem gangstétt. Þetta var þörf breyting og góð og borgaryfirvöld fá plús í kladdann hjá mér, hinum gangandi vegfaranda, fyrir þetta. Auk þess er akbrautin orðin mjórri (sem nemur breikkun gangstéttarinnar) svo umferðin verður enn hægari og -- takið nú eftir -- strætó mun ekki ganga nema aðra leiðina eftir Suðurgötu þegar hún opnar aftur og nýtt leiðakerfi tekur gildi. Þetta þýðir minni umferð, rólegri umferð, minni hávaði, minni mengun, minni hætta. Í einu orði sagt frábært. Ég hlýt að nefna líka það sem er að þessari framkvæmd: Gangstéttarhellurnar eru óþarflega lausar og dúa sumar þegar á þær er stigið. Nú hef ég ekki mikið vit á hellulagningum, en þetta líst mér illa á.



2. Fegrun lóða í nágrenninu. Það er magnað að sjá hvað margir nágrannar hafa gert garðana sína glæsilega. Hvar sem maður drepur niður fæti sjást nosturslegir garðar, lagðir fallegum hellum og sjáanlegt að það er hugsað um þá. Það er af sem áður var, þegar garðarnir hér í hverfinu voru einkum fíflabreiður og skriðsóley, kerfill og úr sér vaxnar jurtir sem voru fallegar einhvern tímann í fyrndinni. Þessum görðum fer nú fækkandi og í staðinn koma flottir garðar. Það er nú skemmtilegt. Sólvallagötu og Garðastræti vil ég sérstaklega nefna. Kínverjarnir í fyrrum húsi Ólafs Thors hafa komið upp tennisvelli. Fólkið í húsinu "Hólatorgi" við Garðastræti tók duglega til hendinni fyrir nokkrum árum og gerbreytti ljótu porti í snoturt port. Rússarnir eru meira að segja búnir að fegra hjá sér -- þótt auðvitað sé ennþá allt forljótt hjá þeim. Bara ekki eins forljótt og það áður var. Semsagt framför. Geðhjálp er til húsa í nágrenninu líka, og þar er sko garðurinn að verða glæsilegur. Eftir áralanga óhirðu er lóðin loksins að verða samboðin stórglæsilegu húsinu, sem samtökunum var nýlega gefið. Síðan er áreiðanlega tylft íbúðarhúsa til viðbótar - ef ekki tvær tylftir - sem hafa tekið stakka skiptum. Húsin gerð upp, garðarnir teknir ærlega í gegn af fagmönnum ... í stuttu máli sagt, þá er hverfið mitt farið að vera sjálfu sér til prýði.



3. Nýbyggingar. Ég hef áður tjáð mig um hótelið sem verið er að leggja lokahönd á í Aðalstrætinu. Ég ítreka að ég er hæstánægður með það. Það hlýtur náð fyrir vandfýsnum augum mínum. Fyrir utan hvað þetta hótel lítur hundrað sinnum betur út en ruslið sem var þar áður, þá er stóreflis hótel á þessum stað um leið vítamínsprauta fyrir miðbæinn, og ekki er nú vanþörf á því. Sem miðbæingi og Reykvíkingi er mér hlýtt til gamla miðbæjarins og vil sjá veg hans sem mestan. Þetta hótel er lóð á þá vogarskál. Fyrir utan hótelið má nefna stórhýsi sem verið er að reisa á horni Geirsgötu og Ægisgötu. Beint andspænis því, hafnarmegin, hefur svo Kaffi Skeifan gengið í endurnýjun lífdaga sem Hamborgarabúllan -- þar sem fást einhverjir þeir bestu handborgarar sem eg hefi etið. Ekki amalegt að hafa eftirlætisveitingastaðinn sinn örskotslengd frá heimili sínu.

Það stendur til að gamli Slippurinn verði rifinn. Það verður nú missir að honum, en kannski er bara kominn tími á hann. Sem velunnari skipasmíða á Íslandi vona ég innilega að þetta þýði ekki frekari hnignun þessarar iðngreinar samt. Slíkt veit ekki á gott. En það veit hins vegar á gott sem í staðinn á að koma: Íbúðarhúsnæði fyrir fjölda fólks plús húsnæði fyrir listaháskóla og fleiri vinnustaði/stofnanir. Besta leiðin til að styrkja borgarhverfi eins og miðbæinn er að fjölga í honum fólkinu. Þetta hnígur einmitt í þá átt.



4. Kirkjugarðurinn. Þessari perlu Reykjav´kur var gert h´tt undir höfði fyrir nokkrum árum og ráðist í stórfelldar endurbætur sem nú sér loksins fyrir endann á, nokkrum árum síðar. Hellulagðir gangstígar, uppgerð eliði, almennileg og hlý lýsing, bætt aðgengi .... það er með velþóknun sem ég fylgist með þegar þessum garði er gert til góða. Hann á það skilið. Eða, eins og einnig mætti orða það: Nágrenið á það skilið.



Og gleðilegan nóvember.

No comments:

Post a Comment