Tuesday, November 9, 2004

Gúttóslagurinn



Í dag er níundi nóvember, einn merkilegasti dagur í sögu íslenskrar stéttabaráttu. Dagur gúttóslagsins. Það var 9. nóvember 1932, að það sauð upp úr milli verkalýðs Reykjavíkur og vandsveina yfirvalda. Þetta átti sér aðdraganda: Kreppan var í algleymingi og það stóð til að lækka kaupgjaldið í atvinnubótavinnu borgarinnar. Verkamenn, sem margir hverjir löptu dauðann úr skel og áttu allt sitt undir atvinnubótavinnunni, máttu ekki við að missa spón úr aski sínum, og gerðu aðsúg að borgarráði, sem þá fundaði í húsinu Þórshamri.



Lögregla og kylfusveinar hvítliða (les: ungir Sjálfstæðismenn) voru til varnar, en eftir stuttar ryskingar voru kylfurnar snúnar úr höndum þeim, vandsveinarnir hraktir á óskipulegan flótta og nokkrir lúbarðir. Héðinn Valdimarsson var í borgarráði og stóð fyrir innan glugga. Braut þar sundur stóla og rétti stólfætur út til verkamannanna til að nota sem kylfur. Þegar vandsveinaliðið var brotið á bak aftur stormuðu verkamennirnir Þórshamar og neyddu borgarráð til að afturkalla ákvörðunina um að lækka kaupgjaldið.



Hvað svo? Að lögreglunni gersigraðri átti nú íslensk alþýða skyndilega alls kostar við ríkisvaldið. Kúgunartæki þess voru sigruð. Hvað tók við?



Kommúnistaflokkur Íslands hafði verið í fararbroddi í Gúttóslagnum; Einar Olgeirsson m.a.s. hafið slaginn á herhvöt þar sem hann hvatti menn sína til dáða. Nú stóð K.F.Í. með pálmann í höndunum. Þarna var tækifærið til að láta byltinguna rætast á Íslandi. En allt kom fyrir ekki. Rauðliðar réðu götunum í nokkra klukkutíma og á meðan ráðvilltur kommúnistaflokkurinn vissi ekki sitt rjúkandi ráð söfnuðu hvítliðar liði sínu á nýjan leik og endurskipulögðu og höfðu daginn eftir tekið bæinn aftur. Byltingin var skammvinn sú.



Þegar andófið hafði verið kæft niður voru Einar Olgeirsson og fleiri kærðir og dæmdir. Hins vegar sáu menn að sá dómur mundi hleypa öllu í bál og brand aftur, og frekar en að takast á við annan slag -- þegar K.F.Í. tæki kannski af skarið -- var dómnum ekki framfylgt og loks voru kommúnistunum gefnar upp sakir. Almenningsálit mun auk þess hafa verið með verkamönnunum, þar sem þeir voru, má segja, að berjast í örvæntingu og fyrir lífi sínu og fjölskyldna sinna.



Það má draga lærdóm af Gúttóslagnum. Þar mun koma að aftur slái í brýnu milli vandsveina valdastéttarinnar og íslenskrar alþýðu. Þá má það ekki endurtaka sig, að forystuflokkurinn bregðist skyldu sinni þegar á reynir. Í forystu verður, m.ö.o., að vera flokkur sem er reiðubúinn að axla ábyrgð og leiða alþýðuna. Slíkur flokkur verður vitanlega að vera til, til að byrja með.

No comments:

Post a Comment