Monday, March 27, 2006

Valdarán, lygar, morðhótanir ...

Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi halda áfram að bæla niður andóf gegn sér. Ansi er ég hræddur um að þessi Kozulin sé að afhjúpa eitthvað sem eigi sér stoð í raunveruleikanum: „Fullyrt er í yfirlýsingu skrifstofu Kozulins, að Milinkevits sé raggeit, og búi ekki yfir pólitískum styrk, þrátt fyrir næga peninga, kynningu og stuðning frá Evrópu og Bandaríkjunum.“ Minnir á marga sem á undan hafa gengið; Walesa, Havel, Saakashvili, Drascovic og auðvitað Jústsénkó.
Þetta er ein tegund af heimsvaldastefnu: Ef það er ríki þar sem samneysla er mikil, olnbogarými fyrir erlent kapítal lítið og yfirvöld stjórnlynd, þá er hægt að æsa til uppreisna og grafa undan gömlu valdaklíkunni, og á sama tíma styðja nýja valdaklíku til að fylla upp í valdatómið sem skapast.
Lesið greinarstúf Vilhelms Vilhelmssonar um þetta á Egginni í dag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þann 20. mars birtist fréttatilkynning á heimasíðu ALCOA á Íslandi: „Alcoa framleiðir ekki hergögn“ þar sem fyrirtækið ber af sér sakirnar sem Andri Snær Magnason bar á það, að það væri hergagnaframleiðandi. Í fréttatilkynningunni er vísað í frétt á hinni bandarísku heimasíðu ALCOA: „Alcoa Awarded Contract to Produce Aluminum Castings for Tactical Tomahawk Missile Program“ -- frá 1. desember síðastliðnum. Lesið þá frétt með eigin augum. Er ALCOA hergagnaframleiðandi eða er það ekki hergagnaframleiðandi?
Alcoa (NYSE:AA) announced today that its Alcoa Forged Products and Aluminum Castings business has signed a five-year contract with Klune Industries, a supplier of finish-machined parts to prime contractor Raytheon, to manufacture high-strength aluminum structural castings for the U. S. Navy's Tactical Tomahawk missile.
(Rétt er að taka fram að Jón Frímann skrifaði um þetta á undan mér.)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Skoðanakönnun gefur sterklega til kynna hvað almenningi finnst um Baugsmálið: Hér um bil það sama og mér. Í Baugsmálinu birtist með skýrum hætti hvernig nýr straumur valdastéttarinnar olnbogar eldri straumi valdastéttarinnar frá og þessi átök taka gjarnan á sig pólitíska mynd. Þegar skrifuð verður bók um stéttabaráttuna á Íslandi, þá held ég að þarna sé kominn góður kandídat fyrir sýnidæmi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég hef nokkrum sinnum vísað í greinar eftir þann góða ísraelska friðarsinna, rithöfund og aktívista Uri Avnery. Baruch Marzel heitir maður, leiðtogi ísraelska öfga-hægriflokksins National Jewish Front, og á dögunum hvatti hann til þess að ísraelski herinn dræpi Avnery. Marzel þessi er öfgamaður en hann getur tæplega talist á jaðri ísraelska stjórnmála. Orð þessa fúlmennis ná eyrum óhugnanlegs fjölda heilaþveginna bókstafstrúarmanna. Óábyrg orð geta dregið dilk á eftir sér. Þennan dilk ætti að draga inn á réttargeðdeild.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um óábyrg orð, þá er nokkuð athyglisvert að fylgjast með hörðum viðbrögðum ráðamanna við neikvæðum ummælum erlendra banka um íslenska hagkerfið. Þegar (...ég segi ekki ef...) spilaborgin hrynur, þá er þarna kominn syndabukkur sem hægrimenn munu benda fingri á. Erlendu bankarnir og Vinstri-grænir já, þeim verður kennt um að hafa kjaftað niður góðærið.
Í alvöru talað, er ekki eitthvað bogið við þetta orsakarsamhengi? Banki lýsir áhyggjum af tilteknu efnahagskerfi meðan hjól þess snúast á fullu. Það fer að ískra í hjólunum og ganga verr; bankinn hlaut að valda erfiðleikunum með bölsýni sinni. Í alvöru talað, jæja, væntingar geta haft sín áhrif á markaði og þannig, en er í alvöru ætlast til þess að maður kaupi þetta?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ulrich Rippert skrifar um frönsku uppreisnirnar í maí/júní 1968 og í mars 2006 og ber saman. Býsna fróðleg skrif.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Mahmoud Abbas heldur áfram að afhjúpa hverjum hann þjónar. Sama gamla sagan, einn fanginn í fangelsinu er settur yfir hina. Hamas hafa fyrir löngu gengið eins langt og þeim er stætt á að gera. Ef það er einhver, sem ætti að krefja um viðurkenningu og vopnahlé, þá er það Ísrael.

No comments:

Post a Comment