Tuesday, March 14, 2006

Ástandið í Nepal undanfarnar og komandi vikur + fleira

Til að byrja með: Ástæða er til að benda á þennan áhugaverða fyrirlestur sem haldinn verður í kvöld í Friðarhúsinu á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Dagur Þorleifsson sagnfræðingur fjallar um trúarhópa og þjóðflokka Íraks og málin verða rædd. Fyrirlesturinn hefst klukkan 20.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þetta þarf ég að skoða nánar við fyrsta tækifæri.
Þetta líka.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er mikið á döfinni í Nepal. Í dag hefst þriggja vikna herkví maóista sem hefur verið í undirbúningi. Vegum verður lokað, Kathmandú og fleiri borgum verður lokað, flutningar stöðvaðir og svo framvegis. Það eru nokkrar vikur síðan þetta var tilkynnt. Fyrirvarinn var hafður til að fólk gæti undirbúið sig; almenningur birgt sig upp af mat og þess háttar. Þessi herkví er samt aðeins aðdragandinn að því sem koma skal: Þann 3. apríl nk. hefst allsherjarverkfall og -verkbann. Maóistar ætla að gera sitt besta til að lama efnahagslífið gjörsamlega. Tilgangurinn er að setja eins mikinn þrýsting á konunginn og mögulegt er. Ríkisstjórnin skorar að sjálfsögðu á nepölsk fyrirtæki að hvika hvergi, en ég sé satt að segja ekki hvernig þau geta staðið gegn allsherjarverkfallinu.

Um leið og maóistar og sjöflokkarnir eiga viðræður er haft eftir tveim af leiðtogum sjöflokkanna að allsherjarverkfallið eigi aðeins að standa í viku (til 10. apríl), en svo muni maóistar lýsa yfir nýju vopnahléi til að gefa sjöflokkunum pólitískt svigrúm. Það kemur nú í ljós hvort satt reynist. Annars eru fréttir misvísandi. T.d. sýnist mér vera talað umstór árás sé yfirvofandi á Kathmandú 6. apríl, nema ég misskilji eitthvað.

Einn af leiðtogum CPN-UML segir að 12-punkta samkomulagið frá því í haust verði bráðum „útskýrt nánar“ – hvað sem hann meinar með því býst ég við að það verði fróðlegt.

Maóistar hafa haft mikið umleikis undanfarið. Eru sagðir hafa rænt 1,8 milljón rúpíum úr banka, sprengt einhverja skrifstofu, drepið þrjá hermenn og sært sex í árás í V-Nepal og drepið sjö í viðbót í annarri í A-Nepal. Fyrir rúmri viku féllu heilir 38 í einum og sama bardaganum

En ekki gengur allt fyrir sig eins og smurt innanbúðar hjá maóistunum. Tveir miðstjórnarmenn í maóistaflokknum, Rabindra Shrestha og Anukul, bera Prachanda og Baburam Bhattarai þungum sökum: Að þeir hafi (a) í 8 ár, af 10 sem stríð fólksins hefur staðið, búið erlendis (semsagt í Indlandi) og (b) tekið upp ó-próletaríska stefnu (þá væntanlega nýlega yfirlýsta stefnu á stjórnlagaþing og stofnun borgaralegs lýðveldis), og (c) loks um nepótisma í stjórn flokksins. Þetta eru vægast sagt þungar ásakanir og spurning til hvers þær leiða. Skemmst er að minnast klofningsins milli Prachanda og Bhattarais í vor sem leið, sem hefði getað orðið maóistum mjög þungur í skauti hefði þeim ekki tekist að leysa hann. En nú er spurning. Maóistar hafa aldrei verið sterkari en einmitt nú. Klofningur núna gæti hæglega orðið katastrófa fyrir þá.

Nú, George Bush skorar á kónginn að „endurreisa lýðræðið“ sem aldrei var. Ég held að eina leiðin sem kóngurinn hefur til að láta gott af sér leiða, úr þessu, sé að segja af sér og fara í útlegð. 2000 manna lögfræðiráðstefna skoraði líka nýlega á hann að gera það, að segja af sér. Kóngurinn og menn hans vísa á bug allri erlendri aðstoð við að leysa málin
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
sakaði um vinstrimennsku“ … úff, hann hættir ekki að koma manni á óvart.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það verður víst að bíða til morguns að ég tjái mig að fullu um glæpamanninn Micael Rubin.

1 comment:

  1. this post was very informational same topic i am searching from last time before but finally i am getting right answer thank you so much

    ReplyDelete