Thursday, March 16, 2006

Herkví á Nepal og innanbúðarerjur meðal maóista

Madan Prasad Khanal skrifar um ástandið og segir að (a) Indverjar styðji sjöflokkana gegn kónginum, þótt þeir séu í samfloti við maóista, en (b) Bandaríkin hafi á tekið upp fullan stuðning við kónginn, gegn maóistunum, og reyni að beina sjöflokkunum til hans líka. Khanal skýrir m.a. frá viðræðum kóngsins við Donald Camp og sendiherrann Moriarty.
Á Kantipur er fjallað um, og farið nánar ofan í, gagnrýnina sem tveir miðstjórnarmenn CPN(M), Ravindra Shrestha og Mani Thapa (Anukul), settu fram gegn Prachanda og Baburam Bhattarai á dögunum. Gagnrýnendurnir hafa sett á laggirnar hóp sem þeir kalla „New Cultural Revolution Group“ og segjast vilja ræða gagnrýnina opinberlega, frekar en að umræðan fari fram innan flokksins. Þeir segja að yfirlýsingar Prachanda séu mótsagnakenndar (mér sýnist, í fljótu bragði, að það sé rangt hjá þeim), og að Prachanda og Bhattarai sigli stundum undir fölsku flaggi með því að kalla sig öðrum nöfnum (stundum Dr Keshar Jung Raimajhi, eða Lhendup Dorjee). Auk þess að þeir hafi gerst handgengnir Congressflokknum (sem ég leyfi mér að fullyrða að er ekki rétt hjá þeim) og hlífi sínum eigin fjölskyldum við beinni þátttöku í stríðinu. Þeir vilja að Prachanda undirgangist opinbera sjálfsgagnrýni.
Prachanda hefur rekið þá báða úr flokknum og kallaði þá „liðhlaupa úr byltingunni“ og „þjóna krúnuharðstjórnarinnar og gagnbyltingarinnar“. Auk þess sakaði hann þá um „anarkíska og ópólitíska starfsemi“ og fleira. Hann er ekki vanur að spara stóru orðin.
Það eru með öðrum orðum blikur á lofti. Byltingin er komin langt inn á strategískt stig „war of manuever“ og þarf nú á öllu sínu að halda. Árangursrík herkvíin er til marks um það, en rétt er að það komi fram, að Rauða krossinum og fleirum sem starfa að mannúðarmálum óbundnir af ríkisstjórninni er heimil för. Ríkisstjórn konungsins ritskoðar fréttir og bannar blaðamönnum að fjalla um áhrifin af herkvínni – til þess að folk eigi erfiðara með að átta sig á umfangi þeirra. Að öðru leyti lætur krúnan eins og það sé engin herkví. Í Nýju Delhi funda fulltrúar maóista (m.a. Baburam Bhattarai) og borgaralegu sjöflokkanna stíft á meðan.
Klofningur væri reiðarslag fyrir maóistana, og það væru svik æðstu leiðtoga líka. Lesendur mínir hafa tekið eftir því að Prachanda er í nokkrum metum hjá mér. Hitt verð ég að viðurkenna, að miðað við þær upplýsingar sem ég hef, þá hef ég ekki forsendur til að meta með vissu hverjir hafa rétt fyrir sér í þessari misklíð. Á meðan svo er fylgist ég átekta með, og blogga um gang mála og mat mitt á stöðunni eftir því sem mér þykir tilefni til. Það væri hreint glapræði hjá maóistunum, ef þeir misstu það núna, á lokasprettinum.
Að þeim fyrirvara gefnum, að forsendur mínar eru takmarkaðar, þá get ég samt ekki annað en sagt hvað ég held að sé réttast í þessu máli: Ég held að Prachanda og Baburam Bhattarai séu a.m.k. í aðalatriðum á réttri leið, frá sjónarhóli byltingarinnar og stéttabaráttunnar. Það getur verið að eitthvað sé hæft í sumum ásökununum, en ég held að gagnrýnin eigi ekki við rök að styðjast þegar því er haldið fram að þeir hafi tekið „ópróletaríska stefnu“. Stefnan á borgaralegt lýðveldi er raunsæ – það er í sjálfu sér varla neitt sem mun koma í veg fyrir að það markmið náist á næstu misserum – en stefna á að koma strax á sósíalísku alþýðulýðveldi, á þessu stigi stéttabaráttunnar, held ég að væri ekki raunsæ.
Ég held að til þess að halda þeirri stefnu til streitu núna væri dogmatísk blinda á aðstæður, ídeólógískur ósveigjanleiki sem leiddi byltinguna í gönur. Segjum að maóistum tækist að vinna hernaðarsigur í byltingunni (sem er ólíklegt) og að þeir mundu stofna sósíalískt alþýðulýðveldi strax. Slíkt lýðveldi mundi standa eitt og pólitískum berangri, einangrað og bláfátækt, höfuðsetið af herskáum heimsvaldasinnum. Þótt menn hafi ekki átt annarra kosta völ, að taka upp „sósíalisma í einu landi“ í Ráðstjórnarríkjunum á sínum tíma, þá gafst það illa. Og Nepal er ekki Ráðstjórnarríkin, heldur lítið fjallaland með innan vil 30 milljón íbúum sem auk þess eru alls ekki allir á einu máli um ágæti maóistastjórnar! Með öðrum orðum held ég að þarna sjáum við í verki að maóistarnir séu að efna það sem þeir hafa heitið, að læra af mistökum og sigrum sögunnar.
Auk þess er fráleitt að Prachanda sé handgenginn Congressflokknum. Yfirráðasvæði maóista nemur um þrem fjóru hlutum landsins og á því býr mikill meirihluti landsmanna. Þeir bera höfuð og herðar yfir nokkurn annan stjórnmálaflokk og Congressflokkurinn, sem er óneitanlega stór, hefur ekki roð við þeim.

No comments:

Post a Comment