Monday, March 20, 2006

Lúkasénkó, 1. maí o.fl.

Í Frakklandi færast mótmælendur í aukana. Pólitísk glöp hægristjórnarinnar taka engan endi, stéttamótsetningar fara vaxandi. Nú er bara að krossa fingur, að pólitískur þroski og stéttarvitund Frakka reynist duga til þess að nýta þennan öldutopp -- eða næsta -- til virkilegra framsækinna breytinga. WSWS skrifa um málið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Milesovic hefur verið jarðaður. Ég vil af því tilefni ítreka ábendingu mína á grein Jóns Karls Stefánssonar, „Ótrúlegar rangfærslur íslenskra fréttastofa“, sem fjallar einmitt um Milesovic og hvernig hann var hafður fyrir rangri sök, syndabukkur fyrir vestræna heimsvaldastefnu í Júgóslavíu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Guðmundur Gunnarsson áréttar ummæli sín frá því í fyrra, að hann og Rafiðnaðarsambandið telji að leggja beri af kröfugöngur á 1. maí. Ég tjáði mig nú um þá hryggðarmynd sem 1. maí í fyrra var. Þar voru fulltrúar flestra verkalýðs- og mannréttindafélaga, en verkalýðurinn sjálfur var varla sýnilegur. Ef valið stendur milli þess að hafa svona skrípamynd, eða pulsupartí í Laugardalnum, þá er valið ekki erfitt fyrir mig.
Kröfuganga er til þess hugsuð að hreyfing sýni mátt sinn. 1. maí í fyrra gaf frekar til kynna máttleysi íslensks verkalýðs -- ef við þá viljum styðjast við þann mælikvarða. Ég vil það reyndar ekki. Kröfugöngur eru kannski bara ekki rétta tækið fyrir nútímann. Verkalýð nútímans skortir kannski stéttarvitund, en mátt skortir hann ekki. Kannski vill hann bara tjá vilja sinn með öðrum hætti. Og nei, pulsupartí er tæplega leiðin sem rétt er að fara.
Mótmælin á laugardaginn voru kannski vísbending í sömu átt. Mér skilst að salur 1 í Háskólabíói hafi verið fullur -- sem er gott -- en tölur af útifundinum á Ingólfstorgi eru heldur dapurlegri. Kringum 800-1000 manns, má skilja af Samtökum herstöðvaandstæðinga; 300 manns segir Rúv, (og sýnist mér að SHA séu nær lagi). Engu að síður, miðað við að 80-90% þjóðarinnar eiga að vera á móti þessu stríði, hvar er þá fólkið?
Það er greinilegt að þessa taktík þarf að hugsa upp á nýtt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Maóistar í Nepal leyfa birgðaflutninga til Kathmandú. Þeir eru þá ekki meiri illmenni en það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lúkasénkó sigrar með yfirburðum sem koma víst fáum á óvart. Það skrítna við hann er, að hann ku vera vinsæll í alvörunni. Hvað sem stjórnarháttum hans líður, þá hefur hann einn ótvíræðan kost (sem gæti átt þátt í vinsældum hans), sem fleiri stjórnmálamenn mættu tileinka sér: Hann talar enga tæpitungu. Kallar Bush hryðjuverkamann, t.d., og segist munu hálsbrjóta mótmælendur og að þjóð sín sé ekki „tilbúin“ fyrir lýðræði.
Alexander Lúkasénkó gerir það sem Bush og Blair dreymir um að gera og er það sem þá dreymir um að vera. Ekki nóg með stjórnarskrárbreytingar til að opna sjálfum sér áframhaldandi setu við völd, ekki nóg með að setja harðsoðnustu „öryggis“-löggjöf í Evrópu, ekki nóg með að beita hvers kyns lúabrögðum, baktjaldamakki og fautaskap, heldur er hann auk þess ófeiminn við beinar hótanir. Hann þorir að kalla friðsama mótmælendur „hryðjuverkamenn“ og að hóta því að þeir verði hálsbrotnir. Ég er viss um að Bush dreymir blauta drauma þar sem hann er Lúkasénkó.
Ef það er rétt, sem sagt er, að hann sé mjög vinsæll í þokkabót (margt skrítnara hefur skeð í mannkynssögunni; efnahagurinn er a.m.k. býsna góður), þá held ég að hann hafi þetta bara. Vinsæll harðstjóri, hver getur beðið um meira?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lavrov segist telja að Hamas viðurkenni brátt Ísraelsríki. Hann fylgist greinilega ekki með: Hamas hafa nú þegar viðurkennt Ísraelsríki de facto með því að taka þátt í kosningum sem byggja á Oslóarsamkomulaginu! Hvað er það annað en de facto viðurkenning að gera það, þegar samkomulegið var milli PLO og Ísraelsríkis? Hvernig sem fer, þá býst ég frekar við því að það færi málið í heild sinni framávið, að Hamas hafa nú afhent Abbas ráðherralista. Niðurstaðan gæti orðið sú að heimastjórnin verði afskrifuð. Þá færist ábyrgðin á hernáminu þangað sem hún á heima, til Ísraela, og eitt rangt skref verður tekið aftur. Í öllu falli verður fróðlegt að fylgjast með framvindunni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Kristinn H. Gunnarsson spáir fögru um að Framsóknarflokkurinn sé að verða „að jaðarflokki með lítil áhrif í íslenskum stjórnmálum á næstu árum.“ (orð blaðamanns Vísis). Vel ef satt reynist. Það er ótrúlegt hvað þetta flokksræksni hefur troðið sér og sínum spilltu peðum hvarvetna að, þar sem bitlinga er að hafa, gjörsamlega úr hlutfalli við fylgi meðal þjóðarinnar. Það er aum tilvera fyrir einn flokk, þegar hann hefur það sér helst til ágætis að einhvers staðar verði vondir að vera.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þess bók ætla ég að kaupa við fyrsta tækifæri.

No comments:

Post a Comment