Wednesday, March 15, 2006

Michael Rubin, mín upplifun

Jæja, það er best að segja aðeins frá Michael Rubin, þeim athyglisverða manni.

Elías fór á mánudagsmorguninn og lagði inn kæru hjá lögreglunni sem kunnugt er. Auk hans stóðu fimm aðrir að kærunni, þar á meðal ég. Hvers vegna? Jú, það er ástæða til að ætla að Rubin hafi tekið virkan þátt í því á sínum tíma að „matreiða“ upplýsingar í aðdraganda Íraksstríðsins, fyrir yfirmenn sína Donald Rumsfeld og Paul Wolfowitz, til þess að þeir gætu rökstutt sitt pólitíska markmið, árásarstríð gegn Írak, með upplýsingum sem hentuðu málefninu. Með öðrum orðum er ástæða til að gruna Rubin um virka aðild að glæp gegn mannkyni.

Ég mætti í Odda rétt fyrir hádegi á mánudaginn til að hlýða á fyrri fyrirlestur Rubins þann daginn. Áður en fyrirlesturinn hófst dreifðum við flugriti þar sem maðurinn var kynntur og hvað hann hefur gert, upplýsingum sem komu ekki fram í drottningarviðtalinu á miðopnu Morgunblaðsins. Það var líka tekið við mig stutt viðtal fyrir NFS og annað fyrir Ríkisútvarpið. Síðar um daginn fór ég á annan fyrirlestur hans, í Lögbergi. Ég var með diktófón og tók báða fyrirlestrana upp í heild sinni, og sömuleiðis umræðurnar á eftir, meira og minna.

Upphaflega stóð til að gera allt sem hægt væri til að koma í veg fyrir að þessi fyrirlestur yrði haldinn. Frá því var fallið eftir að við hugsuðum málið betur, og ákveðið að láta duga að (a) kæra hann, (b) dreifa flugritum og (c) gagnrýna hann í fyrirspurnatíma.

Það var fróðlegt að sjá alvöru nýkóna í holdi og blóði. Lygara, zíonista, heimsvaldasinna, hrokagikk og glæpamann. Það er Háskóla Íslands til skammar að bjóða þessum manni að gera háskólann að vettvangi fyrir stríðsáróður. Auk þess var það sendiráð Bandaríkjanna sem flutti Rubin inn. Hafði það ekki efni á að leigja sér sjálft sal undir sinn áróður? Háskóli Íslands, nánar tiltekið Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Félag stjórnmálafræðinga og Háskólinn í Reykjavík hafa svert sinn eigin orðstír. Rubin er doktor, en það sem hann hafði að segja hafði lítið sem ekkert akademískt gildi, en því meira áróðursgildi.

Í stuttu máli var fróðlegt að fylgjast með tilburðum Rubins. Hann er greinilega enginn byrjandi í ræðumennsku, enda notaði hann óspart taktík á borð við að segja einn og einn brandara til að „mýkja“ salinn. Sjaldan hef ég séð einn mann strá eins um sig með rökvillum, útúrsnúningum, undanbrögðum og meira að segja lygum. Lygum? Já, til dæmis sagði hann að Írakar hefðu á sínum tíma ráðist á Kuwait Bandaríkjamönnum alveg að óvörum. Það er hreint og beint ósatt. April Glaspie, ígildi sendiherra Bandaríkjanna í Baghdad, hafði áður gefið Saddam Hussein til kynna að árás á Kuwait væri Bandaríkjunum ekki á móti skapi.

Rubin sneiddi þægilega framhjá atriðum á borð við að árásarstríð er glæpur gegn mannkyni. Af honum mátti skilja að árás á Írak hefði verið réttlætanleg vegna þess að Bandaríkjamenn ætluðu ekki að bíða eftir annarri 11. september-árás. Nú, slíkrar árásar var ekki að vænta frá Írak, og fyrir utan það breytir almannavilji í Bandaríkjunum engu um óréttmæti árásarstríðs á Írak eða nokkuð annað land. Hann minntist líka á að „sumir“ vildu meina að árásirnar 11. september hefðu aldrei átt sér stað. Ég hef aldrei heyrt neinn halda því fram svo ég muni. Þetta var m.ö.o. strámannsrökvilla af billegustu sort.

Elías Davíðsson tók til máls í fyrirspurnatímanum. Hann byrjaði á að kynna sig með nafni. Rubin gall við: „Oh, of course, you’re famous.“ Það var ekki laust við lítilsvirðingu í röddinni, en hann hafði greinilega heyrt af Elíasi áður. Eftir að Rubin hafði svarað Elíasi (án þess að neitt merkilegt kæmi fram) kallaði Elías fram í að Rubin hefði verið kærður til lögreglu fyrir aðild sína að glæpum gegn mannkyni. Rubin svaraði að bragði: „Go ahead, you’re making a parody of yourself.“ Það er hálfpartinn fyndið að hann hafi ekki staðist það að hnýta þessu við, og afhjúpa þannig sinn eigin hroka. Ég verð að vísu að viðurkenna að mér fannst það góð redding hjá Rubin, þegar Elías minntist á vitnisburð Richard Clarke í bók, um tiltekinn fund sem Clarke sat, og Rubin fullyrti að Clarke hefði alls ekki setið téðan fund. Elías spurði Rubin þá hvort hann væri að kalla Clarke lygara og Rubin sagði, eftir sekúndubrots þögn, „He’s inaccurate.“ Góð redding, það viðurkenni ég.

Einhver fundargesta nefndi olíuauð Íraks sem ástæðu fyrir innrásinni. Rubin vísaði því á bug og fannst það fjarstæða. Bandaríkjamenn hefðu ráðist á Írak til að bægja frá hinni miklu ógn sem stafaði af Saddam Hussein og til að koma á lýðræði. Þeir hefðu auk þess eytt miklu meiri peningum í þetta stríð en þeir gætu nokkru sinni gert sér vonir um að græða á olíunni, og reyndar væri öll olía Íraks ekki einu sinni svona mikils virði, og ekki einu sinni öll olía Miðausturlanda! Ég leyfi mér að fullyrða að það er bull og vitleysa, en eftir sat að hann hafði svarað spurningunni með útúrsnúningum að mínu mati. Þannig að ég notaði tímann milli fyrirlestranna tveggja m.a. til að undirbúa spurningu sem, að mínu mati, var mjög góð. Hún var svona:

Ég hef aldrei heyrt um ríki sem eru góðgerðastofnanir og „stríð til að breiða út lýðræði“ hljómar því fjarstæðukennt í mínum eyrum. Ríki haga sér fyrst og fremst, ef ekki eingöngu, eftir pólitískum hagsmunum. Nú, það er augljóslega olía í spilinu, og hún snýst ekki bara um peninga, heldur umfram allt um strategíska hagsmuni, hnattræna valdapólitík og vingjarnlegar ríkisstjórnir í heimi þverrandi olíulinda. Hugtakið „amerískir hagsmunir“ gerir ennfremur ranglega ráð fyrir því að Bandaríkin séu hagsmunalega séð einsleitt fyrirbæri, sem þau eru ekki. Þau skiptast í skattgreiðendur, sem borga brúsann, og stórfyrirtæki, sem hirða gróðann. Í ljósi þessa, hvað hefurðu að segja um Íraksstríðið og olíuna?

Rubin sagði að þetta væri góð spurning og síðan komu margar mínútur af innihaldslausum moðreyk um hvað Bandaríkin væru lýðræðisleg, hvað forsetinn væri mikill fulltrúi þjóðarinnar sjálfrar og svo framvegis. Með öðrum orðum, þá svaraði hann ekki spurningunni. Reynið ekki að segja mér að Michael Rubin viti ekki að það séu stéttaskipting og sérplægnir hagsmunahópar í Bandaríkjunum!

Rubin hreytti oft ónotum í „left-wing anti-war blogs“ sem virtust vera, að hans mati, helsta uppspretta heimskulegra hugmynda flestra viðstaddra um Írak. Reyndar notaði hann þetta mikið sem ad hominem-rökvillu, að tala um að fólk hefði lesið eitthvað á vinstrisinnuðum bloggum. Reyndar var líka eftirtektarvert að hann skyldi segja „anti-war“ í niðrandi merkingu, það segir kannski eitthvað um hann sjálfan. Einn fyrirspyrjandi, sem hafði ekki fengið svar við spurningu sinni, heldur tóman moðreyk, kvartaði undan því að hann hefði ekki svarað. Rubin svaraði: „Jú, ég svaraði spurningunni, þú fékkst bara ekki svarið sem þú vildir fá, og ef þú bloggar áttu eftir að fara heim og blogga um að ég hafi ekki svarað þótt ég hafi gert það, bara vegna þess að þú ert ósammála mér.“ (Ég býst við, svo ég geri orð Óla Gneista að mínum, að það sé einmitt það sem ég er að gera núna!)

Rubin notaði líka kennivaldsrökvillu (appeal to authority) mikið. Í stuttu máli var hann eini maðurinn í herberginu sem hafði eitthvað vit á því sem var að gerast í Írak, vegna þess að hann hefur dvalist þar sjálfur. Við hin, sem flest vorum ósammála honum, höfðum bara lapið einhverja vitleysu hvert upp úr annars vinstrisinnuðu anti-war bloggum.

Það dylst varla neinum að ég hef eindregna skoðun á þessum fyrirlestrum tveim sem ég fór á. Þetta var hneisa, hneyksli. Þessi maður ætti ekki að standa í pontu í háskóla, spúandi lygum og vitleysu og agíterandi fyrir mannréttindabrotum, heldur ætti hann að sitja á bak við lás og slá. Ummælum á borð við þessi svaraði hann reyndar bæði í áðurnefndu drottningarviðtali á miðopnu Morgunblaðsins á mánudaginn, og í a.m.k. öðrum fyrirspurnatímanum. Menn eins og ég eru, að hans mati, í rauninni ekki annað en hægindastólaeinræðisherrar sem vilja fangelsa alla sem eru ósammála þeim. Þótt rökvillan liggi í augum uppi, þá má ég samt til með að skýra hana: Í fyrsta lagi beitir hann persónuárás til að gera lítið úr gagnrýnendum sínum, og í öðru lagi afvegaleiðir hann umræðuna með frávarpi, þannig að þetta snúist ekki um hvað hann kunni að hafa á samviskunni, heldur séu gagnrýnendur hans svona frekir.

Michael Rubin er fróður og hann er vel gefinn og hann kann ýmislegt fyrir sér í ræðumennsku. Það má hann eiga. Hins vegar er hann bæði hrokafullur rökvillingur, herskár heimsvaldasinni, zíonisti, glæpamaður og ósvífinn og ófyrirleitinn lygari.

No comments:

Post a Comment