Thursday, March 16, 2006

Af hernum og löngu tímabæru brotthvarfi hans + fleira

Þetta er vafalítið frétt vikunnar. Þegar hinar frábæru orrustuþotur eru flognar úr hreiðrinu, og þyrlurnar líka, hvað er því þá til fyrirstöðu að herinn taki upp síðustu hælana, pakki draslinu sínu af Heiðarfjalli niður og hypji sig heim til sín? Ekkert nema sleikjuskapur íslenskra stjórnvalda. Þetta er svo niðurlægjandi fyrir ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar að ég fæ gæsahúð. Bandaríkjastjórn afhjúpar um leið hvað hún er illa upp alin: Maður sparkar ekki í hundinn sinn.
Nú gæti verið hægur vandi að koma öryggis- og varnarmálum Íslands í betri farveg: Í landi sem á sér enga náttúrulega óvini og er hvort sem er svo gott sem óverjandi í hernaðarlegu tilliti þyrfti ekki meira en að kaupa nokkrar loftvarnabyssur og -sírenur og koma þeim fyrir í helstu bæjum landsins. Þá er kominn tími til að Íslendingar komi sér upp almennilegum björgunarþyrlum og einu eða tveim varðskipum. Úrsögn úr NATO er svo möst. Samningar við ríkin fimm sem hafa neitunarvald í Öryggisráði SÞ, um að þau ábyrgist í sameiningu hlutleysisstöðu Íslands, ætti svo að duga til að ímyndaðir innrásarmenn hugsuðu sig tvisvar um.
Annars kýs ég að líta svo á að Bandaríkjaher sé að hörfa og hafi gefist upp eftir áratugalangt viðnám íslenskra friðarsinna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar rændu Ahmad Sa'adat, leiðtoga PFLP, úr fangelsi í Jeríkó, og Hamas segjast nú munu hefna þess með því að ræna ísraelskum hermönnum. PFLP heita vitaskuld líka hefndum. Er það skrítið? Er von að maður spyrji? Nú er spenna í Palestínu eins og kunnugt er. Ísraelar gátu varla fundið heppilegri tíma til að ögra Palestínumönnum. Það er svona sem vítahringurinn gengur fyrir sig. Olmert bætir fylgi Kadima -- til þess hefur leikurinn verið gerður -- og svo var bætt við einni árás á Jenín, eins og kirsuberi ofan á tertuna.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Illfyglið hagmælta segir frá nýlegri kurteisisheimsókn ungra umhverfisverndarsinna í bækistöðvar Illvirkjunar.

No comments:

Post a Comment