Friday, March 3, 2006

Íslamismi, stórsókn í Nepal og fleira

Í Mogganum í gær áttu Sjón og Þorsteinn Vilhjálmsson sitthvora frábæra greinina. Þeir fá báðir stóran plús í kladdann fyrir það!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ungir Danir snúast til íslam“ -- tengt við Mahómetsteikningarnar ófyndnu á dögunum. Samt er þetta í takt við trend sem hefur borið nokkuð á í Evrópu undanfarin ár: Ungmenni af innfæddu, kristni bergi brotin, turnast til íslams. Hvers vegna? Gremja eða firring sem fær þau til að snúa baki við vestrænum gildum? Uppgjöf á kapítalisma, en leit að lausnum í trúarbrögðum? Ætli það ekki?
Ég hef engar áhyggjur af þessu. Íslamstrú er reaktíf og forneskjuleg, rétt eins og kristni, og hún býður ekki upp á neinar lausnir við aðsteðjandi vandamálum tengdum auðvaldi, heimsvaldastefnu, mengun eða öðrum þjóðfélagsmeinum. Þegar þessi leitandi ungmenni finna ekki í íslam lausnirnar sem þau leita að, þá munu þau ganga af trúnni aftur. Þessi leit að lausnum er hins vegar bara jákvæð. Ég er ekki í vafa um -- altént bjartsýnn á -- að á næstu árum muni ungmenni í Evrópu og víðar finna aftur frjálslyndi og sósíalisma. Næsta byltingaalda í Evrópu verður ekki íslömsk, því get ég lofað ykkur. Uppreisnin í París í haust er leið var forsmekkur -- sekúlar uppreisn æstra ungmenna sem skorti skipulag og pólitíska menntun til að spila úr henni. Menntunin kemur -- bæði í baráttu og í fræðslu -- og þá vænkast hagur Strympu.
Íslamisminn, sem er í sókn meðal eþnískra evrópskra ungmenna um þessar mundir, er ekkert til að óttast. Kannski að þetta séu frekar fjörbrot mannkynslausnara í klerkaskykkjum? (Ekki að ég sé svo naív að spá endalokum trúarbragða í bráð...)
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Einar Rafn skrifar: „Nýtt álver á Norðurlandi“.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal eru bardagar og mannfall. Þar fyrirhuga maóistar allsherjarverkfall sem mun hefjast 3. apríl, en aðdragandinn hefst 14. mars. Nú verður látið sverfa til stáls, vegum lokað, Kathmandú sett í herkví. Hvað mun þetta vara lengi? Það hefur ekki verið ákveðið hvenær verkfallið tekur endi.
Hvort mun hafa meira úthald, verkfallið eða konungdæmið?
Mun verða fjöldaliðhlaup úr hernum?
Munu maóistar hefja árásir á sjálfa Kathmandú?

Þessu verður fróðlegt að fylgjast með næstu mánuði.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talinn sigurstranglegur“? Ja, varla er það ofmælt hjá Mogganum....

(Nafn Þorsteins Vilhjálmssonar leiðrétt skv. athugasemd Braga.)

No comments:

Post a Comment