Monday, January 30, 2006

Sigur Hamas-samtakanna í Palestínu

Hvað sýnir sigur Hamas í Palestínu? Umfram annað að palestínskur almenningur er orðinn þreyttur á spilltum embættismönnum Fatah, og að stefna Fatah hefur fallið um sjálfa sig vegna þess að hana skortir strategíu. Spilling er hvimleið, ég held að því verði ekki neitað, og því verður heldur ekki neitað að hún hefur verið landlæg meðal borgaralegrar forystu Palestínumanna. Hamas hafa hingað til getið sér orð fyrir að vera ekki spilltir, og fyrir að láta ekki deigan síga frammi fyrir kjarnorkuveldinu Ísrael.
Hvers má vænta af Hamas á næstu misserum? Um það er vandi að spá, en þeir hafa tvo kosti og báða slæma: Annað hvort að halda uppteknum hætti með herskáum yfirlýsingum og árásum, sem mundi þýða að yfirgangur Ísraela gangi í endurnýjun lífdaga og færist í aukana, eða þá að þeir slaka á klónni og leita einhvers samkomulags við Ísraela og stuðningsmenn þeirra.
Fatah skortir strategíu, og það sama á við um Hamas. Annars vegar viðurkenna þeir Ísrael og Oslóarsamkomulagið de facto með þátttöku í kosningunum, og þar með hugmyndina um tveggja ríkja lausn, en hins vegar tala þeir um eyðingu Ísraels. Fyrir utan að eyðing Ísraels er ekki möguleg, hvað ætla þeir sér þá að gera við milljónir ísraelskra borgara?
Hvað sem á eftir að gerast á næstu mánuðum, þá er ekki við öðru að búast en að Hamas reynist jafn ófærir um að ná markmiðum sínum og Fatah hafa verið. Ef Hamas tekst að halda völdum verður það vegna þess að þeir gerast sellát og gera málamiðlanir frá óraunhæfri stefnu sinni. Til valda munu komast Hamasleiðtogar sem er hægt að kaupa og einhverjir imamar munu finna ritningarstaði í Kóraninum til að réttlæta friðþægingu.
Það kemur betur og betur í ljós að það er ekki borgaraleg lausn á vandamálum Palestínumanna. Palestínska borgarastéttin er ekkert betri en borgarastéttir annarra þjóða. Lausnir sem byggjast á þjóðerni, trú eða öðru ídentíteti eru jafn vonlausar. Þá líst mér betur á stéttabaráttu, þar sem almenningur berst fyrir almennum mannréttindum -- barátta vinnandi fólks fyrir rétti sínum.
Svipað á eftir að koma á daginn annars staðar þar sem íslamistar ná völdum: Þeir eiga ekki eftir að skila almenningi niðurstöðum sem sátt mun ríkja um. Þótt þeir séu við valdatökuna ekki eins spilltir og forverarnir, þá er íslam ekki betri en önnur trúarbrögð til að byggja stjórnmálastefnu á.

No comments:

Post a Comment