Monday, January 23, 2006

Ég hef verið ansi aktífur á Vantrú að undanförnu. Í dag birtist greinin Athyglisverð köpuryrði frá Agli Helgasyni eftir mig, sem er svar við nýlegri grein Egils Helgasonar, "Um fordóma og fáfræði". Í fyrradag átti ég greinarkorn um rökvilluna "Sök vegna tengsla" og 18. þ.m. aðra um rökvilluna "Árás á persónu vegna aðstæðna". Daginn áður skrifaði ég um "Völvuspá og talnaspeki í Vikunni". 9. janúar birtist "Blóðskömm eða hór? Valkvæmt ritningarminni biskups eða ritningarleg afstæðishyggja?" og 5. janúar birtist "Biskup Þjóðkirkjunnar, óvæntur bandamaður". 28. desember birtist svo "Dómstóll úrskurðar að kennsla í vitrænni hönnun í opinberum skólum brjóti gegn stjórnarskrá" eftir Joe Kay en þýdd af mér. Hvað ætli maður haldi þessum dampi lengi?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Lewis Welshofer Jr., háttsettur maður í bandaríska hernum hefur verið dæmdur fyrir að drepa íraska herforingjann Abed Hamed Mowhoush með illri meðferð -- réttara sagt, pyndingum -- árið 2003. Hann mun hafa kæft hann með svefnpoka. Setjið mann í aðstöðu til að hafa líf og limi einhvers annars í hendi sér, og þá er bara tímaspursmál hvenær svona nokkuð hendir. Eftirlitslausir ójafnaðarmenn með varnarlausa fanga undir járnhæl. Óhugnaður.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
„Nígerskir gíslatökumenn segjast geta haldið föngum sínum í áraraðir“ hermir Mbl.is. Eins og fréttin er orðuð mætti halda að gíslatökumennirnir séu vondu gæjarnir. Það er ekki svo. Shell og Nígeríustjórn hafa farið sínu fram gagnvart íbúum svæðisins af hrottaskap, stundað rányrkju, spillt umhverfinu og farið illa með heimamenn sem hér greinir. Ég get ekki áfellst samfélag sem rís upp gegn kúgurum sínum, frekar en ég get áfellst dýr sem bítur frá sér þegar það er króað af í horni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
20 manns létust í Nepal“ hefur Mbl.is eftir nepölskum embættismönnum. Það þýðir að fjöldinn er talsvert meiri. 6 lögreglumenn féllu og 14 maóistar „fundust látnir“ eftir átökin. Blaðamaður Morgunblaðsins er greinilega ekki með Nepal á heilanum eins og sumir, fyrst hann hefur þetta eftir. Það er alkunna að þegar vopnaðar sveitir konungsins -- hvort sem það eru hermenn eða lögreglumenn (einu orði vandsveinar) -- „finna“ menn dauða eða ganga af þeim dauðir sjálfir, þá segja talsmenn ríkisstjórnarinnar vanalega annað hvort að fólkið hafi verið maóistar, eða þá fórnarlömb þeirra. Með öðrum orðum er ekki mark takandi á opinberum nepölsum heimildum um mannfall eða í hvaða liði hinir föllnu voru. (Ég þarf varla að taka fram að heimildum frá maóistum þarf líka að taka með fyrirvara.)
Ég hef reyndar fleira að athuga við þessa frétt -- þótt það sé kannski ekki sanngjarnt að vera of harður þegar venjulegur blaðamaður skrifar stutta frétt um mál sem er eitt af mínum helstu áhugamálum. Allavega, í greininni er sagt: „Madhav Kumar, háttsettur meðlimur nepalska kommúnistaflokksins segir að lýðræðislegir stjórnarhættir verði ekki teknir upp í landinu.“ Það kemur ekki fram að nepalski kommúnistaflokkurinn (þetta eru ekki maóistar heldur sameinaðir marx-lenínistar, næststærsti þingræðisflokkurinn) er fremstur í flokki stjórnarandstöðunnar sem stendur að þessum mótmælum. Flokkar þeir eru sjö talsins („sjöflokkana“ hef ég kallað þá) og þar af er Congressflokkurinn stærstur en CPN(UML) næststærstur. Kumar var, m.ö.o., að tala fyrir hönd mótmælendanna og gagnrýna kónginn fyrir að ríghalda í völd sín. Það er ljóst að hann mun ekki gefa þau upp fyrr en í fulla hnefana. Þar sannast hið fornkveðna: Mannréttindi og lýðræði hljótast ekki fyrir náð valdhafa heldur fyrir baráttu hinna kúguðu.

En þetta er ekki búið: „Að sögn lögreglunnar var gripið til þess ráðs að handataka fólk eftir að upplýsingar bárust um að uppreisnarmenn úr röðum maóista hefðu blandað sér í hóp mótmælenda og hafi þeir ætlað að hvetja til þess að ofbeldi yrði beitt. [leturbreytingar V.V.]“ Þarna er komin fram ástæðan sem einræðisherrann gaf fyrir útgöngubanninu alræmda. Það á að vera til þess að vernda stjórnarandstöðuna ef ske kynni að agents provocateurs úr liði maóista ætluðu sér að sá misklíð! Hafa menn heyrt annan eins rakalausan þvætting?? „Ég svipti þig frelsinu vegna þess að það er þér fyrir bestu.“

En það fer semsé ekki milli mála að það er allt komið í bál og brand aftur í Nepal. Þegar átökin eru hörðust eru breytingarnar hraðastar og baráttunni fleygir fram. Fyrir hvern dag sem landið logar í ófriði styttist kveikiþráðurinn undir tundrinu sem hans hágöfgi, ruddinn og fanturinn Gyanendra, situr á. Með öðrum orðum, þá styttist í að nepalskur almenningur komist áleiðis um eitt stig í stéttabaráttunni.

No comments:

Post a Comment