Sunday, January 22, 2006

Nepal. Sýrland.

Mbl.is greinir frá atlögu lögreglu á mótmælendur í Katmandú í Nepal. Þeir kröfðust lýðræðis og afsagnar Gyanendra harðstjóradruslu. Lögreglan veittist að þeim með kylfum og táragasi, eins og sést á Reuters-myndbandi sem fylgir fréttinni. Þetta einræðisfyrirkomulag getur ekki átt langt eftir.
Það er allt logandi. Maóistar ráða meira en hálfu landinu, þingræðisflokkarnir, studdir Indlandi og Vesturveldunum, sameinaðir gegn krúnunni og í taktísku samstarfi við maóista (sem Bandaríkjastjórn getur ekki lengur -- af pólitískum ástæðum -- kallað „hryðjuverkamenn“). Maóistar farnir að gera árásir í úthverfum Katmandú. Þetta er skák og mát -- í orðsins fyllstu merkingu („kóngurinn er umsetinn“ á persnesku...) -- aðeins tímaspursmál hvenær völd hans heyra sögunni til.
Þá verður einu ljóninu færra í veginum, lénskerfið úr sögunni.
Þingræðisflokkarnir og maóistarnir eiga þá ennþá eftir að útkljá næsta stig stéttabaráttunnar, milli borgara og öreiga. Í landi eins og Nepal er borgarastéttin varla til. Aðalástæðan fyrir því að maóistar eru ekki löngu búnir að sigra eru líklega andlegir fjötrar hindúatrúar, sem stór hluti þjóðarinnar býr ennþá við. Það, annars vegar, og hins vegar auðvitað skiljanleg tortryggni fólks sem tengir þá við menningarbyltinguna í Kína eða Gúlagið í Sovétríkjunum.
Ég held að það sé of snemmt að spá hörmungum í rauðu Nepal. Helstu hörmungarnar yrðu líklega í formi brjálaðra heimsvaldaríkja -- með Indland, Bandaríkin og Bretland fremst í flokki (hvað mun Halldór Ásgrímsson segja þá?) -- sem munu án efa ólmast á alþýðulýðveldinu um leið og það verður til, eins og mýmörg dæmi eru um úr sögu tuttugustu aldar (og reyndar þeirrar nítjándu líka). Auk þess er Nepal eitt fátækasta land heims svo róðurinn verður þungur hvernig sem fer. En dr. Baburam Bhattarai, næstráðandi maóistaflokksins, komst best að orði þegar byltingunni var lýst yfir 1996: Hamar og sigð munu blakta yfir Everestfjalli.
=== === === ===
Sýrlandsforseti -- sem er eilíft fórnarlamb slæmrar pressu á Vesturlöndum -- sakar Ísraela um að hafa drepið Arafat. Ísraelar segjast ekki kannast við neitt. Hér er spurning: Ef margra ára innilokun í herkví, þar sem maður getur ekki hætt sér út fyrir hússins dyr, telst ekki heilsuspillandi meðferð, hvað telst það þá?

No comments:

Post a Comment