Wednesday, September 19, 2007

Nepal, Taser, Eggin

Í Nepal eru maóistar hættir þátttöku í bráðabirgðaríkisstjórninni. Hún var mynduð eftir að konungurinn lét undan margra daga óeirðum í Katmandú, og hlutverk hennar var að undirbúa nýtt stjórnlagaþing. Maóistar kröfðust þess að landið yrði gert að lýðveldi fyrst, auk þess sem hlutfallskosning yrði viðhöfð þegar fulltrúar yrðu valdir á stjórnlagaþingið. Þegar hinir flokkarnir neituðu að mæta þeim kröfum, sögðu maóistar sig úr stjórninni. Þetta var í gær. Baburam Bhattarai, næstráðandi flokksins, boðar friðsamleg mótmæli og segir að fyrst ríkisstjórnin neiti að lýsa yfir stofnun lýðveldis, þá muni maóistarnir gera það á götunni í staðinn, meðal fólksins sjálfs. Aðgerðirnar verða friðsamlegar, en maóistar áskilja sér rétt til að svara fyrir sig ef á þá verður ráðist.
Her maóistanna hefur meira og minna yfirgefið búðirnar þar sem hann er undir eftirliti SÞ, til að taka þátt í götumótmælum og kröfugöngum, en vopn þeirra liggja enn í geymslum undir vökulum augum friðargæsluliða SÞ.
Maóistar hafa þó ekki alveg lagt árar í bát með þingræðisleið til lýðveldis, en þeir eru líka að reyna að fá þingið kallað saman til aukafundar, þar sem þeir vilja leggja fram vantrauststillögu gegn forsætisráðherranum.
Álitsgjafar segja þetta vera sjónarspil sjá maóistunum, því þeir óttist að bíða afhroð í kosningunum. Ég hef ekki forsendur til að meta hvort það er rétt, en í öllu falli gæti þetta verið til marks um jákvæða breytingu í baráttutilhögun þeirra. Það kemur bara í ljós.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
John Kerry hélt fyrirlestur og í fyrirspurnatíma spurði ungur maður hvers vegna hann hefði gefið forsetakosningarnar hér um árið þótt brögð hefðu verið í tafli, og vitnaði í Armed Madhouse eftir Greg Palast. Spurningin var aðeins lengri en sú eina mínúta sem honum var gefin -- og hvað gerist? Jú, lögregluþumbar taka hann fastan og rota hann með Taser-stuðbyssum, af sömu gerð og lögreglan hérna er að íhuga að taka upp. Horfið á vídeóið. Samstúdentar hans hreyfa hvorki legg né lið, sumir brosa jafnvel. Ógeðslegt, hreint ógeð.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Hjálp, þjófar! og Halldór Carlsson skrifar Lesendabréf um fyrirhugað niðurrif Metelkova-hverfisins í Ljubljana.

No comments:

Post a Comment