Wednesday, October 3, 2007

Moggalygi eða...

Í dag var þing sett hér í Danmörku og af því tilefni fór ég á mótmæli á ráðhústorginu í Árósum, þar sem ég er staddur. Þau voru ekki nærri því eins kröftug og í fyrra, þegar Fjogh gat ekki orða bundist um þessa "socialistiske ballademagere", en hress voru þau nú samt. Ég sá vini mína í KP, og fleiri á svipuðum pólitískum slóðum, og tók m.a. við flæer um nasistafund á sama stað á laugardaginn -- þar sem fólk er hvatt til að mæta og mótmæla nasistunum. Ég er ánægður með hvað vinstrivængurinn hérna lætur nasistana ekki komast upp með neitt múður. Það er gott að nasistar eru varla til á Íslandi, annars veit ég ekki hvernig væri tekið á þeim þar.
*************
Það mætti halda að það væri lygi, en skrifast líklega á reikning hroðvirkni vegna sparnaðar, en að segja að Ayan Hirsi Ali hafi verið "fræðimaður við rannsóknastofnun" er beinlínis rangt. American Enterprise Institute er áróðursstofnun, og það sem þaðan kemur og er kennt við akademíu er sniðið að þörfum últrahægrisinnaðra hagsmunaafla í Bandaríkjunum. Hirsi Ali er í vondum félagsskap ef hún er ekki últrahægrisinnuð sjálf, svo mikið er víst.
*************
Það verður ekki sagt að Mogginn sé fyrstur með fréttirnar, að Blackwater séu að gera eitthvað vafasamt í Írak. Málaliðar heimsvaldasinna þar hafa svo sannarlega ekki fengið þá athygli sem þeir verðskulda, en það er nú samt æði langt síðan a.m.k. ég frétti af framferði þeirra.
*************
Mér ofbýður stundum hvað gagnrýni á Saving Iceland er oft grunnhyggin og, já, ég segi það bara: heimskuleg. Það er ótrúlegur fjöldi kjána sem básúnar kjánaskap sinn með digurbarkalegum en heimskulegum yfirlýsingum um SI.

No comments:

Post a Comment