Monday, September 10, 2007

Geitungar á klósettinu og lóur úti á túni

Um daginn, þegar ég kom heim frá Evrópu, varð mér aldeilis bylt við. Ég fór í sakleysi mínu á klósettið, og glugginn var allur morandi í geitungum. Ég stökk til, greip kröftugt flugnaeitur, og drap hvern einasta sem ég fann -- það voru 13 stykki þann daginn. Síðan sprautaði ég eitri inn í rifurnar á veggnum og þykist vita að allmargir til viðbótar hafi drepist við það. Síðan þá, þ.e.a.s. undanfarnar tvær vikur, hef ég verið að drepa þetta 2-4 geitunga á dag, vanalega á klósettinu en líka einn og einn annars staðar í íbúðinni. Jibbí!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn steig ég út á hlað á Kleppi, og sá stóreflis hóp af lóum á túninu fyrir norðan húsið. Ég taldi 72 stykki. Það eru ólíkt viðkunnalegri skepnur heldur en geitungarnir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í gær fór ég upp í Esju og Hvalfjörð og tíndi krækiber. Mér tókst að öngla saman einu og hálfu kílói, en ekki get ég sagt að sprettan hafi verið mikil.
Berjasprettan í garðinum hjá mér er talsvert meiri. Á laugardaginn fyrir viku kom ég heim af næturvakt, fór út í garð og tíndi 11 kíló af rifsberjum. Þau, ásamt 3 sem ég hafði áður tínt, sultaði ég síðan og saftaði næstu tvær nætur, og sit nú á fullum kjallara af rifsberjaafurðum.

No comments:

Post a Comment