Wednesday, September 12, 2007

12. september

Ég hvet fólk til að mæta við Stjórnarráðið klukkan 12 á hádegi og taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn stóriðjustefnu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Dan Shapley skrifar um hugleiðingar þess efnis, að á OPEC-fundi sem var settur í gær, muni Saúdi-Arabía sýna spilin sín og viðurkenna að þeir, og þar með heimsbyggðin öll, séu komnir á hátind olíuframleiðslu sinnar. Það er frétt sem við munum heyra, ef ekki á næstu dögum, þá á næstu misserum. Það gæti hæglega orðið versta frétt mannkynssögunnar, svo ég taki ekki dýpra í árinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl átti grein á Egginni í gær: Það á að rífa Metelkova.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í tilefni af því að ellefti september er nýafstaðinn, þá vil ég taka fram að ég skil ekki þá áráttu margra, þegar heimsvaldastefna er gagnrýnd, að þurfa í sífellu að afsaka sig með því að segjast ekki styðja hryðjuverk eða fjöldamorð. Er eðlilegt að reikna með því að sá sem gagnrýnir Ísraelsríki sé gyðingahatari? Eða að sá sem gagnrýnir Bandaríkjastjórn hafi eitthvað á móti Bandaríkjamönnum sem slíkum? Eða að sá sem er á móti morðum sé líka hlynntur þeim?
Ég þoli heldur ekki tal um "illsku" hinna og þessara. Ég trúi ekki á "vont fólk", bara á orsakir og afleiðingar.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Vinnuhópur" Olmerts og Abbasar um stofnun "Palestínuríkis" hljómar í mínum eyrum eins og kattarþvottur. Hvað haldið þið að Ehud Olmert kæri sig um Palestínuríki sem stendur undir nafni? Abbas hefur sýnt sitt rétta andlit með samstarfi við óvinina um að bola lýðræðislega kjörinni heimastjórn frá völdum. Hvað haldið þið að hinn almenni borgari í Palestínu trúi heitt á það "lýðræði" sem borgarastéttin þar talar um? Ef ég þekki Ísraela og leppa þeirra rétt mun þessi vinnuhópur leggja drög að nokkrum dvergvöxnum bantústönum, gettóum fyrir Palestínumenn, og jafnvel þau verða ekki að veruleika vegna þess að harðlínuöfl Ísraels munu róa öllum árum gegn stofnun þeirra. Ég get ekki gert upp við mig hvort einsríkis- eða tveggjaríkjalausn er hið rétta í stöðunni, en hitt veit ég að málamyndalausnir þjóna harla litlum tilgangi fyrir Palestínumenn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Skæruliðar láta til skarar skríða í Mexíkó. Það er grein á Wikipediu um þessa hreyfingu (kemur á óvart). Ég veit nú ekkert annað um hana; kannski að hún sé ekki svo galin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Í Nepal hótar Prachanda því að ekkert verði af fyrirhuguðum kosningum í nóvember, nema landið verði gert að lýðveldi fyrst, og fer um landið og skorar á flokksmenn sína að vera tilbúnir fyrir nýja uppreisn. Andstæðingar hans segja að hann óttist bara að fá slæma útreið í kosningunum. Það getur verið. Eftir að maóistaflokkurinn yfirgaf próletarískar rætur sínar er ekki eins greinilegur munur á þeim og öllum þeim aragrúa flokka, sem kenna sig við kommúnisma í þessum heimshluta, eins og áður var. Maóistar gætu tekið upp vopn að nýju, en ég sé ekki hvaða gagn það ætti að gera málstað byltingarinnar nema þeir nái fyrst hugmyndafræðilegum vopnum sínum, og vinni hina stritandi alþýðu landsins á sitt band.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er á næturvöktum þessa dagana, en í gær þurfti ég að skreppa á fund í BSRB-húsinu. Fyrst ég var á fótum á annað borð leit ég fyrst að fyrirlestur Eiríks Bergmann Einarssonar, "Er Ísland í Evrópu?" í Þjóðminjasafninu. Það sem hann sagði þar var nú nokkurn veginn í takt við nýja bók hana, "Opið land", og þar sem ég er nýbúinn að lesa hana, þá hefði ég kannski getað sparað mér fyrirlesturinn og sofið klukkustund lengur um morguninn. Um kvöldið var "Sköllfest", þar sem Kommadistró Íslands hefði eiginlega átt að vera, og síðar um kvöldið var Hitt hjá Femínistafélaginu, sem ég sleppti líka vegna svefnþarfar. Það er að segja, ef einhver saknaði mín á þessu tvennu síðastnefnda.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um Kommadistró Íslands, þá er dálítið nýtt á leiðinni, sem ég hlakka ósegjanlega til að geta boðið upp á næst þegar distróið fer á vettvang, sem verður vonandi fljótlega. Það kemur bara í ljós hvað það er.

No comments:

Post a Comment