Friday, October 12, 2007

Það sem mér finnst um atburði dagsins í borginni

Þann 9. nóvember 1932 var Gúttóslagurinn. Formaður Kommúnistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason var að kenna námsmeyjum í Kvennaskólanum, og gat með öngu móti komist frá. Í dag voru sviptingar í borgarstjórn, og næturvörðurinn ég var sofandi. Breytir það einhverju? Nei -- ekki öðru en því að ég blogga ekki um málið fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Big deal.
Mér finnst kostulegt að fylgjast með þessu máli. Þvílík spilling! Þórólfur Árnason hafði manndóm til að segja af sér þegar hann fann að hans vitjunartími var kominn, og gat haldið ærunni svona nokkurn veginn. Það sama verður ekki sagt um Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.
Við hverju er að búast, þegar maður hefur hrapp í herbúðum sínum, öðru en að maður fái rýting í bakið? Eru Sjálfstæðismenn virkilega svo grænir að þetta komi eins og þruma úr heiðskíru lofti?

Fleyg orð
Í umræðum dagsins hafa nokkur gullkorn hrotið af lyklaborðum landsmanna. Hér eru nokkur dæmi sem mig langar að halda til haga:
Ég les oft blogg Jóhannesar Ragnarssonar. Hann veifar oft réttu tré og kemst auk þess vel að orði. Í kommenti um blogg um mál dagsins kemst hann svo að orði, og ég leyfi mér að vitna beint í hann: „Ég held ... að minnihlutaflokkarnir hefðu líka getað hafnað því að draga kjölturakka Halldórs Ásgrímssonar upp úr drullunni og leyft honum, þess í stað, að veltast um í svaðinu með Villa og frjalhyggjuæskunni. Ég er þeirrar skoðunnar að ætíð fari best á, að asninn fylgi eyrunum.“ Pragmatistinn í mér hefur efasemdir um þessa skoðun, en púrítaninn í mér skríkir af kæti!
Ég kútveltist af ... öh ... andakt yfir þeirri speki hins geðþekka Stefáns Friðriks Stefánssonar segir að nýr meirihluti sé „án málefnagrunns“ -- það var og!
Sjálfstæðismaðurinn Þrymur Sveinsson hefur lært þá lexíu að það „borgi sig illa að treysta Framsókn“ -- tími til kominn!
Óskar Helgi Helgason leggur Vilhjálmi fleyg orð í munn: „Og þú líka, Brútus, sonur minn!“ Vel að orði komist.
Mbl.is hefur eftir Vilhjálmi að þetta komi á óvart því engin „önnur alvarleg ágreiningsmál hefðu komið upp“ í samstarfinu!
***************************************
Í öðrum fréttum, þá fylgist ég nokkuð spenntur með gangi mála í Pakistan. Mér sýnist samt að þar séu, eins og svo víða annars staðar, úlfar og refir að bítast um sauðina. Ég held að það væri bara best að Pakistanar gerðu bara byltingu og steyptu þessum spilltu pólitíkusum af stóli, en kæmu sér í staðinn upp ráðstjórnarskipulagi og sósíalisma.
***************************************
Sex uppreisnarhópar í Írak taka höndum saman gegn Bandaríkjunum -- það gæti orðið athyglisvert. Ég sakna þess samt frá Írak að andspyrna á forsendum sósíalisma sé ekki meira áberandi. Það er btw. villandi fréttaflutningur af andspyrnunni. Hún er alls ekki eins trúarleg og halda mætti ef maður læsi bara Morgunblaðið, heldur er, merkilegt nokk, ennþá sterk þjóðleg andspyrna. Það er nú snöggtum skárra.

No comments:

Post a Comment