Monday, October 15, 2007

Um borgarmál ... og Spán

Ekið á gangandi vegfaranda á Geirsgötu -- það minnir mig á fréttina um daginn, en tölfræði segir að hlutfall gangandi vegfarenda sé mun lægra í umferðarslysum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Sumum kann að þykja það gott, en ekki mér. Þetta er nefnilega einkenni á þeirri áráttu Íslendinga að vilja helst ekki fara gangandi milli húsa. Bílafloti landsmanna er meira en nógu stór til þess að allir komist fyrir í framsætunum einum. Hvaða rugl er þetta eiginlega? Það ætti að vera ókeypis í strætó fyrir alla, alltaf. Þá mætti spara óhemjukostnað við að laga og stækka umferðarmannvirki, þjóðfélagslegan kostnað af bensíneyðslu, mengun, tryggingum, slysum og stressi. Það mætti meira að segja hækka verðið á bensíni (og kallið mig bara bandamann Búrmastjórnar!) þótt mér finnist frekar að það ætti að lækka það, en skammta það til almennings, og sama mætti reyndar gilda um einkabíla. Hjón með tvö börn þurfa ekki að eiga þrjá bíla, díses!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Íbúar í Gnúpverjahreppi og víðar við Þjórsá vilja ekki virkjun. Hvers vegna dugir það ekki sem ástæða til þess að sleppa því að byggja hana?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Að hugsa sér að Batasuna-flokkur Baska hafi verið bannaður, ekki fyrir það sem hann gerði/sagði heldur fyrir það sem hann gerði/sagði ekki! Þeir neita að fordæma ETA skilyrðislaust. Það er misskilningur að Batasuna sé „pólitískur armur“ ETA -- þar eru engin skipulagsleg tengsl á milli. Banninu á Batasuna fylgir bann við því að nokkur sem hefur starfað með Batasuna megi starfa með nokkrum öðrum flokki, að viðlögðu banni við þeim flokki líka. Það jafngildir því að fjórðungur Baska sé de facto sviptur kosningarétti. Hvers vegna er þessum mannréttindabrotum ekki mótmælt? Hvar er Félagið Ísland-Baskaland?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég verð að segja að mér finnst nýja borgarstjórnin lyktar af stækri tækifærismennsku. Björn reddar á sér rassgatinu, hin komast til valda. Kannski gerast kaupin bara svona á eyrinni; það kann að vera lítil fórn að redda rassinum í Birni í skiptum fyrir allt það sem vinstrisinnuð borgarstjórn getur gert gott fyrir borgarbúa. Skv. skoðanakönnun Fréttablaðsins mundu Sjálfstæðismenn og Frjálslyndir tapa manni hvor, en Samfylking og Vinstri-græn auka við sig manni hvor, ef kosið væri núna. Hvað með að boða þá bara til kosninga núna, og mynda fyrst nýtt sameiginlegt framboð Samfylkingar, VG og Íslandshreyfingarinnar, og koma Margréti Sverrisdóttur og Ólafi F. Magnússyni báðum inn í borgarstjórn sem aðalmönnum, en leyfa Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki að éta það sem úti frýs?

No comments:

Post a Comment