Tuesday, October 9, 2007

9. október

Elías skrifar: Vændi -- tvöfalt siðgæði á Eggina, og ég skrifa um Che Guevara: Che Guevara -- 40 ára minning. Það þarf varla að segja neinum, en í dag eru fjörutíu ár síðan hann var drepinn. Ég er ekki yfirlýstur Che-aðdáandi, og á ekki einu sinni bol með honum á. Hins vegar fer það óskaplega í taugarnar á mér hvernig oft er fjallað um hann. Ekki vegna þess að það megi ekki gagnrýna hann, heldur vegna þess að skrifin eru svo oft svo ósanngjörn.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~
GT verktakar fyrir austan fóru aldeilis illa að ráði sínu með þetta útlendinga. Ég vona að það verði komið lögum yfir þessa glæpamenn. Það er óþolandi, alveg gjörsamlega óþolandi, hvað atvinnurekendur komast upp með í viðskiptum sínum við erlent verkafólk. Það er auk þess óþolandi að íslenska verkalýðshreyfingin skuli ekki vera þess megnug að stöðva þetta í eitt skipti fyrir öll. Gott og vel, þau gera alveg heilmikið, en halda samt ekki í við glæpamennina sem hlunnfara saklaust fólks em þekkir ekki rétt sinn eða er minni máttar af öðrum ástæðum.
Ef réttarkerfið lætur svona menn ekki fá það sem þeir eiga skilið, þá endar þetta með því að einhver annar mun gera það. Þætti hinu opinbera það skemmtilegra? Þætti hr. GT skemmtilegra sjálfum ef góðir menn tækju niður um hann og hýddu á honum sitjandann?
Sumir segjast skammast sín fyrir land okkar. Ekki skil ég í því. Hins vegar finnst mér valdastéttin hérna hreint ekki merkilegur pappír.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var spurður hvort mér fyndist að OR ætti að setja hlut sinn í GGE og REI eða ekki. Ef satt skal segja, þá finnst mér bara hvorugt. Ég held hvorki með prívatauðmagni né opinberu auðmagni. Mitt svar við þessu OR dæmi er að við ættum að gera byltingu og steypa valdastéttinni.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Fjöldaaftökur í Afghanistan. Jæja, svo lengi sem þeir eru ekki að eyðileggja ævafornar Búddastyttur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Getur einhver sagt mér hvort starfsfólk McDonalds á Íslandi er í stéttarfélagi, og þá hverju?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það eru önnur tímamót sem má minnast í dag: Eitt ár liðið síðan Kóreumenn sprengdu kjarnorkusprengjuna sína, og reistu þar með rándýrinu enn frekari skorður. Ef ég væri Kóreumaður, þá mundi ég leggja býsna mikið í sölurnar til þess að Kóreustríðið endurtæki sig ekki.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Friðarsúlan heillar mig ekki svo. Ég er ekki búinn að sjá hana; hún gæti vel verið falleg, það er ekki það, en hvað er málið? Hvað á hún að tákna? Einhverja naíva bæn fyrir friði? alla vega er hún ekki tákn fyrir hvað Ísland sé friðsamt, svo mikið er víst. Þátttaka í Nató og árásarstríðum þess er ekki beinlínis friðsamleg. Það er líka fyndið, að hún skuli vera vígð á sama tíma og þessi glæpafundur er haldinn hérna, og að þegar hún var kynnt fyrst hafi viljað svo til að heil þrjú Nató-herskip voru í höfninni! Gárungar þurfa að finna þessu gott nafn.

No comments:

Post a Comment