Thursday, October 11, 2007

Rant dagsins

Jæja, fyrst utanríkismálanefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins hefur samþykkt það, þá er víst engum blöðum um það að fletta, að Tyrkir frömdu þjóðarmorð á Armenum. Ég skil ekki hvað Lýðveldið Tyrkland hefur á móti því að viðurkenna að Ottómanska ríkið hafi framið þjóðarmorð. Hvers vegna að verja gjörðir harðstjórans? Framdi Atatürk kannski valdarán og stofnaði lýðveldi vegna þess að soldáninn hafi verið svo góður? Ég hefði haldið að viðurkenning þjóðarmorðsins, ásamt fordæmingu á því og heitstrengingu um að slíkt mundi aldrei endurtaka sig, mundi frekar styrkja lýðveldið í sessi en hitt.
Það má segja framboði Íslands til Öryggisráðsins til málsbóta, að hér hefur þó aldrei verið framið þjóðarmorð. Alla vega hefur þá verið þagað rækilega um það. Eða, ætli Spánverjavígin á Vestfjörðum geti annars talist þjóðarmorð? (Austurríkismenn tóku þátt í Helförinni, en hafa ekki afneitað henni.) Ekki það, að þetta skipti miklu máli pólitískt séð, því pólitíkin fer gjarnan eftir öðrum brautum en siðferðinu.
Nú munu þeir sem telja herforingjastjórnina í Búrma vera Mahómet Samtaka hernaðarandstæðinga væntanlega telja þetta ósigur fyrir SHA. Ætli það komi ekki ályktun frá miðnefndinni, þar sem eindregnum stuðningi er lýst við Mehmet V soldán, og lygar Armena fordæmdar...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Og ég er hræddur um að einhverjir eigi líka eftir að reka upp stór eyru þegar þeir heyra þessa frétt: Mahmoud Abbas segir að Ísraelar verði að skila hernumdu svæðunum! Ismail Hanyeh segist reiðubúinn að ræða við Fatah og að Hamas geti vel láti völdin á Gaza af hendi! Hafa verið gerð endaskipti á góðu og vondu gæjunum eða hvað?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég held að það sé alveg rétt hjá Pétri Blöndal, að regluverk heilbrigðiskerfisins sé á of háu flækjustigi. Það eru líka ýmsar reglur sem eru beinlínis ósanngjarnar. Er t.d. sanngjarnt að fólk geti ekki átt lögheimili á spítala, þótt það hafi verið inniliggjandi í áratugi og eigi enga von um að útskrifast? Er sanngjarnt að fólk geti ekki komist inn á hjúkrunardeild á dvalarheimili fyrir aldraða vegna þess að það er með skráð lögheimili í bæjarfélagi þar sem það býr ekki lengur? Er eðlilegt að fólk sem einu sinni er lagt inn á geðdeild sé dæmt inn á geðdeild ef það veikist líkamlega?
Það er annars fleira en regluverkið sem er torvelt. Skriffinnskan og smákóngaveldið eru yfirgengilega þunglamalegar fjárhítir og taka fé og tíma frá nauðsynlegri þáttum. Valkvæm einkavæðing á ýmsu, t.d. ræstingum, er einnig til vandræða.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Smælki: Bojkotta Samskip? *** Kallið mig fasista, en mér finnst rétt að íslenska verði opinbert tungumál Íslands. *** Mér finnst að Guðfinna Bjarnadóttir hefði átt að greiða atkvæði með þessari tillögu um sköpunarskáldsöguna. En það er nú bara það sem mér finnst. *** Ætli þessi fréttatilkynning hafi verið skrifðu undir þrýstingi? *** Þetta kalla ég borgaralega óhlýðni!

No comments:

Post a Comment