Wednesday, May 9, 2007

VG, Live Earth, London'05 og Heiligendamm

Á maður að trúa því að VG glopri sigri aldarinnar út úr höndunum á lokasprettinum? Ekki get ég sagt að mér þætti það skemmtilegt.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Núna er verið að handtaka fólk fyrir árásirnar í London 2005. Ég neita að trúa því að íslamskir hryðjuverkamenn hafi varað Binyamin Netanyahu við!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Á maður að vera leiður yfir því að Live Earth! verði ekki á Íslandi? Ég verð nú bara að viðurkenna að ég finn ekki til mikillar depurðar. Ég sé ekki hvaða gagn svona tónleikar eiga að gera gegn þeirri vá sem steðjar að okkur á mörgum vígstöðvum. Eins og með Live8 hér um árið. Þvílík della. Ágóðinn fór næstum allur í yfirbyggingu og í vasa tónlistarmannanna. Þetta er blekking. Blekking, segi ég. Þetta er hugsað sem svona „eitthvað“ sem frægir tónlistarmenn geta gert til að líða betur og fundist þeir þó hafa gert eitthvað. Misskiljið mig ekki, ég hef ekkert á móti frægum tónlistarmönnum, og fáeinir eru mér meira að segja kærir. En þetta er blöff og ekkert annað.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Húsleit hjá „stjórnleysingjum“ sem „tilheyra hryðjuverkasamtökum“ -- það er ekkert annað! Allt er nú hægt að kalla hryðjuverkasamtök nú á þessum síðustu og verstu tímum. Ef þið spyrjið mig, þá væri nær að gera húsleit á Hótel Karpinsky í Heiligendamm í júní. Ég hef grun um að þar verði stór hópur heimsvaldasinna að gera eitthvað fleira en að éta snittur. Ég snuðraði í garðinum við hótelið núna í aprílbyrjun, og hitti þar fyrir vörð sem var næstum því dónalegur við mig. En bara næstum því. Þær löggur sem ég átti samskipti við voru hins vegar greiðviknar og nokkuð þægilegar í viðmóti. En á móti kemur að ég er ekki með dredda og var auk þess í heilum buxum...
En er það ekki billegt að reyna að mála andófið gegn G8 með sama penslinum, að þetta séu nú bara anarkistar sem séu í tengslum við hryðjuverkasamtök? Það er búist við allt að 100.000 mótmælendum á G8, og flestir þeirra eru alls engir anarkistar, nei, síður en svo. Fyrir utan annað: Fyrirbæri á borð við G8-fund getur af sér andstöðu hvar sem það er haldið. Það liggur við að það megi kalla það náttúrulögmál, nei, hvernig læt ég, það er náttúrulögmál. Tesa ( staða) getur af sér antitesu (andstöðu). Vald getur ávallt af sér mótspyrnu. Þannig að það eru skipuleggjendur G8-fundarins sem eru, óbeint, að skipuleggja mótmælin. Augljóslega væru engin mótmæli ef enginn væri fundurinn, eða hvað?

No comments:

Post a Comment