Tuesday, May 22, 2007

Nýja ríkisstjórnin, Palestína, Moggablogg...

Ég vil bara segja eitt um ríkisstjórnina sem er að koma í dagsljósið, að ég er jafn andvígur henni og síðustu ríkisstjórn. Ef skipting ráðuneyta milli kynja verður jöfn hjá Samfylkingunni fær hún að vísu prik fyrir það, sem og fleira, því get ég ekki neitað. En það voru líka einstök atriði sem gamla ríkisstjórnin mátti eiga og fékk prik fyrir. Nei ég veit, mér varð nú ekki tíðrætt um þau, en þau voru nú þarna, seisei já -- skárra væri það nú.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég bendi á frétt af Ortrud Gessler Guðnason, sjálfboðaliða frá Íslandi sem er í Palestínu og varð fyrir barsmíðum af hálfu ísraelskra óknyttaunglinga. Lesa má fréttatilkynningu Félagsins Ísland-Palestína í heild sinni á Egginni: Sjálfboðaliði frá Íslandi varð fyrir barsmíðum í Palestínu. Það er ljóti óaldarlýðurinn, þessir landtökumenn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Eldar Ástþórsson skrifaði grein á Vísi um daginn: Til helvítis með Palestínu! heitir hún. Heill hópur zíonista skríður fram úr fylgsnum sínum til þess að kommentera á grein Eldars, og eru flest kommentin hvert öðru vitlausar. Hvar er þetta fólk dagsdaglega? Létu Zíonistasamtök Íslands (ZSÍ) boð út ganga á póstlistanum sínum?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Jón Karl Stefánsson skrifar á Eggina: Riftir milli grasrótarhópa og austfirskra launþega.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Moggablogg fer hrikalega í taugarnar á sumum. Ég er í sjálfu sér ekki í þeim hópi, en hef samt vissa andúð á því. Það er þægilegra að geta fest blogg beint við fréttir, og það er hentugt að hafa flesta bloggara landsins tengda innbyrðis, og ætli Moggabloggið hafi ekki blásið nýju lífi að glóðum kulnandi bloggmenningar? Altént er það þó eitt: Einsleitni. Þegar flest blogg eru af sama taginu, hvar er þá fjölbreytnin? Ég get svosem trútt um talað, skrifandi á blogger.com... Auk þessflokkast það tæpast undir frjálsari bloggheim, að hann sé undir valdi Morgunblaðsins. Ég er allavega ennþá hérna, og hef lítið hugsað mér til hreyfings (en stundum þó..)
Það er hins vegar eitt sem fer ósegjanlega í taugarnar á mér við sum Moggablogg. Sumir bloggarar þar hafa þann leiða ávana að kommentera á frétt á mbl.is, segja "Það var aldeilis" í fyrirsögninni eða eitthvað ámóta innihaldsríkt, copy/peista síðan allri helvítis fréttinni inn í bloggið sitt í stað þess að láta bara helvítis linkinn nægja! Hefur þetta fólk ekki áttað sig á því að aðrir eru fullfærir um að lesa fréttina sjálfir á mbl.is í gegn um linkinn? Þ.e.a.s. ef þeir komu ekki þaðan inn á bloggið? Það er til tilbrigði við þetta, sem er fólkið sem les frétt og sér ástæðu til að skrifa sérstakt blogg sem ber sama titil og fréttin, og svo gott sem ekkert nýtt kemur fram í, þótt hlutirnir séu orðaðir aðeins öðruvísi (fyrir utan titilinn). Ég held ekki að ég þurfi að nefna nöfn.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég var að ljúka við að ganga frá efni í Frjálsa Palestínu, málgagn Félagsins Island-Palestína, sem ég ritstýri í ár. Það fylgir því viss ánægja að ljúka þannig verki. Ég hlakka til að sjá blaðið koma út. Innanbúðarupplýsingar: Takið kvöldið 5. júní frá, því þá verður félagsfundur sem verður um leið útgáfuhóf blaðsins.

No comments:

Post a Comment