Friday, May 4, 2007

Kaupþing smaupsming

Ég er í viðskiptum hjá Kaupþingi, og hef verið óánægður með það árum saman, en ekki komið því í verk að skipta um banka. Ég þoli það ekki, þegar þessi banki þarf alltaf að vera að skipta sér af mér og klína á mig einhverri andskotans "þjónustu" sem ég hef aldrei beðið um. Það heitir dónaskapur í mínum bókum.
Rétt í þessu hringdi kona í mig. Eflaust góð manneskja og bara að vinna vinnuna sína og svona, en hún hringdi semsé frá Kaupþingi. Erindið var að tilkynna mér mér hefði verið úthlutað þjónustufulltrúa og hún væri sumsé þessi þjónustufulltrúi. Ég sagðist aldrei hafa beðið um neinn þjónustufulltrúa, spurði hverju það sætti að vera að úthluta mér þjónstufulltrúa að mér forspurðum og að ég væri fullfær um að biðja um að fá þjónustufulltrúa ef mig vantaði slíkan. Mér skildist á henni að hún skyldi kippa þessu í liðinn; að ég yrði áfram jafnfrjáls undan þjónustufulltrúaveldinu og ég hef verið. Það er að segja, relatíft frjáls.
Einu sinni hélt ég gremjulista yfir allt sem fór í taugarnar á mér við það sem þá hér Búnaðarbankinn.Ég skrifaði hann að vísu aldrei niður, en kunni hann þess í stað utanað, þangað til hann varð of langur til að ég gæti það. Það var á síðasta áratug.
Það er sagt að tryggð Íslendinga við bankann "sinn" sé með því mesta sem gerist. Það er víst þess vegna sem bankarnir eru með öll þessi gylliboð til fermingarkrakka. Það er eini vettvangurinn þar sem hægt er að ná sér í nýja kúnna, meðal fólks sem er að hefja sinn feril sem auðmagnsþrælar.
Ég er langþreyttur á Kaupþingi. Það er tímaspursmál hvenær mælirinn fyllist og ég tek mitt fjárhagslega hafurtask annað. Ef einhver er sérstaklega ánægður með bankann sinn, þá fúlsa ég ekki við vingjarnlegum ábendingum.

No comments:

Post a Comment