Tuesday, May 22, 2007

Mold undir nöglunum

Fyrsta vorið sem ég hef búið á Laufásvegi hefur hingað til verið alveg hreint ágætt. Ég er svo heppinn, að umhverfis húsið er stóreflis garður. Í honum hefur varla verið tekið til hendinni í meira en 20 ár (með honorable undantekningum af hálfu föður míns og stundum mín) og í stuttu máli ekki vanþörf á. Þannig að ég hef verið með annan fótinn úti í garði í vor. Ég hef til dæmis gjarnan komið heim af næturvakt og stungið upp eða reytt kerfil í einn til tvo tíma áður en ég tek á mig náðir.
Ég hef meðal annars sett niður kartöflur, gulrætur og rósir, fellt tvö tré sem var fyrir löngu kominn tími á, brytjað mörg tonn af greinarusli niður í viðráðanleg stykki og síðast en ekki síst hef ég snúið vörn í sókn gegn erkióvininum -- kerflinum. Kerfill var orðinn of umsvifamikill í garðinum mínum (áður en ég tók til hendinni), en hefur hins vegar gleypt garð nágrannans algerlega. Það var því ekki um annað að ræða en að fara og stinga nágrannagarðinn upp eins og hann leggur sig. Ég er búinn að gera það þrisvar sinnum, og hef undanfarið verið að fínkemba hann í leit að smákerflum.
Rabarbarinn sem ég setti niður í fyrrahaust hefur það fínt og er hinn sprækasti. Ég hlakka til að éta hann.

No comments:

Post a Comment