Friday, May 11, 2007

Það sem mér liggur á hjarta í dag

Það er grein eftir mig í Mogganum í dag. Ef fólk hefur ekki tök á að kaupa Moggann til að lesa hana, þá hef ég ákveðið að vera svo rausnarlegur að birta hana einnig á Egginni: „Íraksstríðið: Mistök?“ heitir hún. Ríkisstjórnin hefur alveg verið leiðinleg við okkur hérna á köflum og svona, en hún hefur þó ekki stutt það að við fengjum sprengju í hausinn. Það er að segja, við sem búum á Íslandi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Hin mæta Katrín Jakobsdóttir minnist á vinnustaðalýðræði á s. 41 í Mogganum í dag. Ég gæti ekki verið meira sammála; lýðræði á vinnustöðum væri hin mesta gæfa. En gætum að: Það er ekki lýðræði að hafa samráð við undirmenn sína. Ekki heldur að bera virðingu fyrir þeim, umbera að þeir séu í stéttarfélagi, vera alþýðlegur við þá eða kaupa bakkelsi á föstudögum. Á meðan einn maður, eða nokkrir, geta ákveðið að leggja niður fyrirtækið eða hækka sín eigin laun eða þannig -- með öðrum orðum, meðan lítill hópur eigenda eða embættismanna hefur völdin á vinnustaðnum, þá er ekki hægt að segja að þar ríki lýðræði. En lýðræði er gott og æskilegt -- við ættum fyrir alla muni að reyna að koma því á á sem flestum vinnustöðum -- en það er varla nema ein leið til þess, og hún heitir afnám auðvaldsskipulagsins.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég er ekki vanur að halda með stórkapítalistum. Alls eki þegar þeir beita peningum sínum í pólitísku skyni. Það er ekki lýðræðislegt að stórfyrirtæki skipti sér af stjórnmálum -- peningar þeirra koma beint úr vösum arðrændra starfsmanna og/eða kúnna, sem hafa lítið að segja um pólitíkina sem viðkomandi fyrirtæki skarar eld að. En þegar Jóhannes í Bónus birtir heilsíðuauglýsingar og skorar á kjósendur Sjálfstæðisflokksins að strika Björn Bjarnason út -- þá liggur nú við að maður geri undantekningu. Ég meina, þarna er verið að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, er það ekki? Það sem Jóhannes gerir er rangt í sjálfu sér, en inntakið í því er rétt. Ég ætla reyndar ekki að strika Björn Bjarnason út, en það er ekki vegna þess að ég sé svo hrifinn af honum...
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er sagt að Kölski freisti ekki þeirra sem hann telur sér vísa. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn enn ekki hringt í mig. Hvers vegna ætli það sé eiginlega? Ég veit ekki hvort ég get kosið flokkinn sem ég fæddist inn í ef hann hringir ekki í mig til að segja mér hvers vegna ég ætti að gera það. Nú hlýt ég að hugsa minn gang.
Ég þekki pólska konu sem er á kjörskrá hérna. Um daginn var hringt í hana frá Sjálfstæðisflokknum. Hinu megin á línunni var önnur pólsk kona sem vildi útskýra fyrir henni hvað Sjálfstæðisflokkurinn væri nú fínn og flottur og að hún ætti nú að kjósa hann. Mín var nú ekki alveg viss, sagðist vera efins. Hin bauð henni þá að koma á fund og kynna sér málin nú almennilega. Eftir nokkrar fortölur sagði mín: "Kannski kem ég .. ekki."

No comments:

Post a Comment