Saturday, May 5, 2007

Prachanda, blóm hugsjónanna fölnað?

Í Nepal segir Prachanda að það ætti að lýsa landið lýðveldi. Á sama tíma taka sex maóistar sæti sem ráðherrar í bráðabirgðaríkisstjórn. 31.000 hermenn maóista sitja í búðum undir eftirliti SÞ og vopn þeirra í innsigluðum skemmum. Ef Prachanda væri alvara þá mundi hann einfaldlega lýsa landið lýðveldi og leita stuðnings hjá verkamönnum í Katmandú og öðrum borgum til þess að koma borgaraflokkunum frá völdum.
Ég hef misst trúna á nepölsku maóistana. Ég held að lýðveldistal Prachanda sé lýðskrum. Orð hans eru innistæðulítil meðan hann fylgir þeim ekki eftir. Þetta eru vonbrigði; maóistarnir voru á blússandi siglingu, með mestallt landið á valdi sínu, boðandi hundraða þúsunda manna útifundi og voru svo gott sem með pálmann í höndunum. Það vantaði að vísu tengingu við fátæklinga í borgunum, en það hefði nú mátt bæta úr því með góðum vilja. En allt kom fyrir ekki.
Það er engu líkara en að Prachanda, Baburam Bhattarai og félagar hafi einfaldlega ekki staðist völdin þegar þeim buðust þau. Það leggst lítið fyrir kappana. En þessu floti hafa fáir neitað.

No comments:

Post a Comment