Tuesday, October 12, 2021

Fólk en ekki flokka

Þið sem hafið undanfarið hneykslast á því að Birgir Þórarinsson hætti í Miðflokknum og gekk í Sjálfstæðisflokkinn, -- og þið sem hafið undanfarið talað um að þið viljið kjósa "fólk en ekki flokka" -- stalðrið þið nú aðeins við: Ef þið viljið "fólk en ekki flokka" þá er Birgir Þórarinsson nýbúinn að gefa ykkur sýnishorn af því hvað það þýðir. Viljið þið það?

Ætti þingmaður frekar að segja af sér og víkja fyrir varamanni sínum, ef hann þolir ekki lengur að starfa með flokknum sem hann var kosinn fyrir? Þá er það flokkurinn sem á þingsætið, ekki þingmaðurinn. Þá er það flokkur, ekki þingmaður sem fólk kýs. Viljið þið það?

Ég er ekkert að segja hvað ég vil -- ég hef satt að segja ekki sterka skoðun á þessu. En mér leiðist þegar fólk ruglar saman eða skilur ekki grundvallaratriði, og það er algengt í íslenskri umræðu. Eiginlega verðskuldar það greinaflokk.

En hvað um það: Það eru auðvitað til hugvitssamlegar og/eða blandaðar lausnir á kosningakerfum, sem ég nenni ekki að fara út í. En listakosningar hjá okkur eru til þess að við getum haft hlutfallskosningu, í stað óhlutbundinnar kosningar. Vissuð þið það? Að það er persónukjör í sumum sveitarfélögum á Íslandi? Það er kallað óhlutbundin kosning. Það virkar eiginlega eins og einmenningskjördæmi: Sigurvegarinn hreppir allt. Einfaldur meirihluti kjósenda getur tekið sig saman um að kjósa eins, og ná þá öllum sætunum fyrir sitt fólk.

Dæmi: Árið 2018 stóðu deilur um Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Þar búa bara 42 manneskjur og þar er óhlutbundin kosning. Fimm virkjunarsinnar fengu 23-24 atkvæði og þar með öll fimm sætin í hreppsnefndinni. Þar er enginn minnihluti eða stjórnarandstaða. Þetta er persónukjör. Viljið þið hafa þetta svona?

Gætið þess, hvers þið óskið. Eða vinnið að minnsta kosti heimavinnuna ykkar áður.

No comments:

Post a Comment