Tuesday, August 24, 2021

Ósannmæli um kommúnista

Þegar kommúnisminn er annars vegar, fara tilfinningar fólks svo á flug að fáir njóta sannmælis sem lenda þar á milli. Dæmi: Trotskí. Hann tapaði slagnum um Sovétríkin. Hann og sigurvegarinn (Stalín) voru erkióvinir. Stalín var líka (réttilega) erkióvinur í augum vestrænna burgeisa. Þannig að Trotskí fékk meiri sǽns eða samúð. Það er ódýrt að vera trotskíisti á vesturlöndum eftir seinni heimsstyrjöld, því engum heilvita burgeisa dettur í hug að auðveldinu stafi ógn af þeim.

Lenín. Einhverjum róttæklingum finnst ekki kúl að lesa Lenín vegna þess að hann er löngu dauður karl. Meira að segja hvítur. Það eru ótrúlega billeg rök gegn fremsta marxista 20. aldar og algjörlega ósamboðin kommúnista. (Ég tek það sérstaklega fram vegna þess að ég hef heyrt yfirlýstan kommúnista segja þetta.) Álíka hlægilegt er það að heyra anarkista hafa rosa skoðanir á Lenín, byggðar á því að hafa ekki lesið neitt eftir hann ... sérstaklega þá sem hafa þenna barnatrú á afnám ríkisvalds, en hafa samt ekki lesið Ríki og byltingu Leníns. Sá sem hefur ekki lesið hana er ekki gjaldgengur í umræðu um ríki og byltingu.

Eða Rósa greyið Lúxemburg, hvers á hún að gjalda? Sú Rósa Luxemburg sem var fædd 1871 og drepin af í ársbyrjun 1919 á lítið skylt við þá Rósu sem maður hefur heyrt krata og anarkista hampa. "Hún gagnrýndi Lenín og Sovétríkin" segja þeir, "við styðjum hana vegna þess." Lesið bók, flón. Lesið hvers eðlis gagnrýnin var, lesið um það er hún skipti um skoðun og umfram allt, lesið hennar eigin málflutning, eins og Þjóðfélagsumbætur eða byltingu. Sá krati sem les hana og er áfram krati, er óforbetranlegur.

Í Indlandi er svolítið svipaða sögu að segja um Bhagat Singh. Hann var mjög róttækur og herskár. Drepinn af Bretum 1931. Í dag -- hampað af öllum sem vilja eigna sér heiður af róttækri þjóðfrelsisbaráttu.

Mér koma í hug orðin "hinn þýski, þjóðlegi Marx" ... þegar menn reyndu að snúa gamla manninum sjálfum upp á auðvaldið og þjóðríkið.

Allrabestur finnst mér samt karlinn sem þrátt fyrir rauðar rætur var löngu sæztur á endurskoðunarstefnuna og snerist öndverður gegn Stalín, fordæmdi hann og kallaði hann geðsjúkling og ég veit ekki hvað. Sami sagði að allt öðru máli gegndi um Maó.

Það er vandlifað.

No comments:

Post a Comment